Sautján þúsund manns hafa flúið svæðið sem Úkraínumenn ráða yfir vestanmeginn Dnipro árinnar en allt að 25 þúsund á austurbakkanum sem Rússar stjórna. Martin Griffiths, yfirmaður mannúðaraðstoðar hjá Sameinuðu þjóðunum ræddi málið á sérstökum fundi Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna í gærkvöldi þar sem hann sagði ljóst að eyðilegging stíflunnar muni hafa alvarleg áhrif á líf fjölda fólks til framtíðar. Endanlegt umfang hamfaranna komi þó ekki í ljós fyrr en á næstu dögum.
Ásakanir um hverjir hafi sprengt stífluna ganga nú á víxl milli Úkraínumanna og Rússa og enn er óljóst hvernig atvikið átti sér stað.
Í morgun var staðan þannig að 23 íbúasvæði voru á kafi í vatni á svæðinu að sögn úkraínskra miðla en búist er við að flóðin séu við það að ná hámarki.
Menn hafa einnig miklar áhyggjur af Zaporizhzhia kjarnorkuverinu, því stærsta í Evrópu en stíflan sér verinu fyrir kælivatni. Alþjóðakjarnorkumálastofnunin segir að grannt sé fylgst með gangi mála en eins og staðan sé nú sé verinu ekki hætta búin.