Þyrí Dröfn starfaði í tæp ellefu ár hjá N1. Var lengi markaðsstjóri og síðar forstöðukona markaðsmála. Hún þakkar samstarfsfólki sínu fyrir magnaðan tíma í kveðju á Facebook.
„Þakklæti er mér efst í huga um einstakt samstarf og vináttu og því treysti sem mér var veitt til að taka við keflinu með þrjú lítil börn,“ segir Þyrí.
Þakkar hún Eggerti Þór Kristóferssyni, fráfarandi forstjóra, og Kolbeini Finnssyni, framkvæmdarstjóra rekstrarsviðs, kærlega fyrir. Eggert yfirgaf Festi sumarið 2022 og Kolbeinn er á meðal þeirra lykilstjórnenda sem sagt var upp í gær.
Þyrí segist stoltust af því að hafa gert starfsmenn stolta af því að vinna hjá Festi alla daga með góðri ímyndaruppbyggingu. Þá þakkar hún mentorum sínu hjá félaginu sem allir séu horfnir á braut. Sérstaklega Hinrik Bjarnasyni framkvæmdastjóra N1 sem er einn þeirra sjö sem hverfa á braut.
Innan við vika er síðan N1 kynnti herferð í grunnskólum með Þorgrími Þráinssyni fyrirlesara. Hinrik og Þyrí voru í forsvari N1 vegna þess.
„Ég hef mætt glöð í vinnuna mína alla daga og gefið allt sem ég á í verkefnin, erfiðast er að geta ekki sagt bless við fólkið sitt,“ segir Þyrí.
Hún segist hlakka til að takast á við nýjar áskoranir.