Vegagerðinni var tilkynnt um aukna jarðhitavirkni á svæðinu í gær. Starfsmenn hennar sem sjá um jarðvegsrannsóknir gerðu athuganir til þess að ganga úr skugga um að engin hætta væri á ferðum, að því er segir í tilkynningu á vef Vegagerðarinnar.
„Ekki er talin hætta á ferðum fyrir vegfarendur en þeir eru þó beðnir um að stöðva ekki bíla sína á þessu svæði,“ segir þar ennnfremur.
Hiti við yfirborð vegarins reyndist ekki óeðlilega hár. Neðst í vegfláum sunnan megin reyndist hann hins vegar 86 gráður rétt undir yfirborðinu. Rannsóknir með jarðsjám og hitamyndavélum sýna að hitinn liggur í sprungu undir veginum. Vísbendingar eru um að hitavirkni á þessum stað hafi aukist í langan tíma eða allmarga mánuði.
Rannsóknir eiga að halda áfram næstu daga í samstarfi við Orku náttúrunnar og ÍSOR. Mæla á burð vegarins, setja upp hitamyndavélar og hitamæla á veginn. Lögreglan á Suðurlandi hefur fengið upplýsingar um stöðuna og vaktstöð Vegagerðarinnar fylgist með vefmyndavélum frá svæðinu.
