Í tilkynningu frá ESA segir að stofnunin hafi upplýst íslensk stjórnvöld í apríl um að kvörtun hefði borist vegna reglna um blóðtöku á fylfullum hryssum. Það blóð er notað til framleiðslu sérstaks meðgönguhormóns sem notað er til að auka og stýra frjósemi í öðrum dýrum eins og svínum, kúm og kindum.
„Í ljósi upplýsinga sem bárust frá Íslandi í tengslum við blóðtökuna, telur ESA að Ísland sé brotlegt við reglur EES-samningsins,“ segir í tilkynningunni.
Þar segir að stofnunin hafi komist að þeirri niðurstöðu að íslandi hafi ekki staðið við skuldbindingar sínar samkvæmt EES-tilskipuninni um vernd dýra sem notuð eru í vísindaskyni, með því að fylgja ekki málsmeðferð og framkvæma ekki það mat sem þar sé kveðið á um. Tilgangur þessarar tilskipunar er að bæta velferð dýra sem notuð eru í vísindaskinu og draga úr notkun dýra eins og mögulegt er.
Tilskipunin mælir fyrir því að tryggja þurfi ákveðnar verndarráðstafanir þegar ákvörðun sé tekin um hvort heimila eigi tiltekin verkefni þar sem dýr eru notuð. Í tilkynningu ESA segir að Ísland sé þeirrar skoðunar að blóðmerahald falli ekki undir gildissvið íslenskrar reglugerðar sem innleiði tilskipun ESA og því sé áðurnefndum verndarráðstöfunum ekki beitt sem slíkum.
„Sem dæmi má nefna að mat á verkefni í samræmi við tilskipunina er ekki framkvæmt áður en leyfi er veitt fyrir verkefninu. Það hefur meðal annars í för með sér að ekki er hægt að tryggja að fram fari mat á hvort í staðinn sé hægt að nota aðra vísindalega fullnægjandi aðferð, sem ekki felur í sér notkun lifandi dýra. Að sama skapi er matið á verkefninu nauðsynleg til þess að sá skaði sem líklegt er að dýrið verði fyrir sé veginn og metinn á móti þeim ávinningi sem búist er við að verkefnið skili.“
ESA telur einnig að ný reglugerð frá ágúst í fyrra auki enn frekar á réttaróvissu um blóðmerahald og tryggi ekki skilvirkni tilskipunar EES.
Áminningarbréfið er fyrsta skrefið í samningsbrotaferli gegn EES EFTA-ríki. Íslendingar hafa tvo mánuði til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri og í kjölfar þess verður ákveðið innan ESA hvort fara eigi lengra með málið.
Bréf ESA til Íslands má sjá hér.