Einar er einn þriggja sem var sakfelldur vegna amfetamínframleiðslu í Borgarfirði í júní 2020. Hann hlaut sex ára fangelsisdóm í Héraðsdómi Reykjavíkur sem Landsréttur mildaði svo í fimm ár. Hann, auk Alvars Óskarssonar og Margeiri Pétri Jóhannssyni, var sakfelldur fyrir framleiðslu á átta kílóum af amfetamíni í sumarbústað í Borgarfirði.
Einar sætti gæsluvarðhalds frá júní 2019 til júní 2020 vegna amfetamínframleiðslunnar. Í janúar 2020 var hann færður úr lausagæslu á Litla-Hrauni í fangaklefa á lögreglustöðinni við Hverfisgötu í þágu rannsóknar annars máls, sem varðar samkvæmt heimildum fréttastofu amfetamínframleiðslu annars staðar.
Í janúar 2020 féllst Héraðsdómur Reykjavíkur á, og Landsréttur staðfesti, að Einar sætti einangrunarvist vegna málsins. Einangruninni var eftir skýrslutökur af Einari í febrúar 2020 aflétt. Einangrunin stóð yfir í sautján daga, samkvæmt dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá 3. maí síðastliðnum.
Rannsóknargögn málanna voru send héraðssaksóknara að lokinni rannsókn í janúar 2021. Í nóvember 2021 krafðist Einar skaðabóta frá íslenska ríkinu vegna einangrunarinnar sem hann sætti. Ríkið féllst á, í svarbréfi í febrúar 2022, bótaskyldu en mótmælti fjárhæðinni.
Ólafur Valur Guðjónsson, lögmaður Einars, segir í samtali við fréttastofu að Einar hafi ekki fengið dóm í málinu sem hann sætti einangrunar vegna.