Rússar eru einnig sagðir hafa skotið sextán eldflaugum í morgun á borgirnar Kharkiv, Kherson, Nikolev og Odessa auk þess sem sextíu og ein loftárás var gerð og stórskotaliðsvopnum beitt. Einnig var ráðist á Kænugarð þar sem nokkrir almennir borgarar eru sagðir hafa særst.
Allsherjar viðvörun hefur verið gefin út í landinu en svo virðist sem Rússar ætli að láta sprengjum rigna á Úkraínu í dag, degi áður en blásið verður til hátíðahalda í Moskvu, þar sem sigri Rússa í seinni heimsstyrjöldinni er minnst.
Guardian hefur þó eftir heimildarmönnum sínum að deilt hafi verið um það í Kreml hvernig hátíðarhöldin ættu að fara fram í ár. Óttast menn að Úkraínumenn geri árásir á borgina í tilefni dagsins, en í síðustu viku var dróni sprengdur yfir Kreml og saka Rússar Úkraínumenn um að hafa staðið þar að baki. Því hefur Volodomír Selenskí Úkraínuforseti staðfastlega neitað.