Breiðablik vann á dögunum afar sannfærandi 2-0 sigur á Stjörnunni er liðin mættust á Samsung vellinum í Bestu deild karla. Eftir fyrstu fimm umferðir mótsins sitja Stjörnumenn í fallsæti með þrjú stig og aðeins einn sigur.
Í viðtali eftir leikinn gegn Blikum var Ágúst Gylfason, þjálfari Stjörnunnar. spurður sérstaklega út í frammistöðu Ísaks Andra Sigurgeirssonar 19 ára gamals leikmanns Stjörnunnar sem átti erfitt uppdráttar í leiknum.
„Okkar ungu leikmenn eru bara sparkaðir niður. Í fyrstu fimm umferðunum eru þeir sparkaðir niður út og suður og maður heyrir skilaboð frá þjálfurum andstæðingana á þá leið að það eigi bara að brjóta á þeim og sparka þá niður. Það er hundfúlt að heyra þetta í fótbolta hérna á Íslandi, að leikmenn sem eru frábærir og að reyna að standa sig séu bara sparkaðir út úr leikjunum.“
Þetta sé ekki vandamál Stjörnunnar
Viðtalið við Ágúst var til umræðu í uppgjörsþætti Bestu deildarinnar, Stúkan, á Stöð 2 Sport í gær þar sem Guðmundur Benediktsson, umsjónarmaður þáttarins sagði þetta ekki vera vandamál Stjörnunnar.
„Þeir eru búnir að fá á sig níu mörk í síðustu þremur leikjum, það er stærra vandamál.“
Sérfræðingar Stúkunnar, þeir Lárus Orri Sigurðsson og Albert Brynjar Ingason, tóku undir með Guðmundi.
„Þetta eru 2,4 mörk fengin á sig að meðaltali í leik,“ svaraði Lárus Orri. „Þessi ummæli Gústa koma mér á óvart. Ég hef séð alla leiki Stjörnunnar á þessu tímabili og hef ekki tekið eftir þessu (að ungir leikmenn Stjörnunnar séu sparkaðir niður) sérstaklega.“

Albert Brynjar telur að með þessum ummælum hafi leikur Stjörnunnar við Víking Reykjavík á dögunum verið ofarlega í huga Ágústs.
„Þar var Davíð Örn Atlason, bakvörður Víkinga, bara settur sérstaklega á Ísak Andra. Davíð Örn fer í viðtal eftir leik og þar talaði hann um að hann hafi viljað opna leikinn á því að fara svolítið fast í Ísak, bara eins og varnarmenn gera.“
Í leik Stjörnunnar og Breiðabliks hafi Andri Rafn Yeoman verið settur sérstaklega á Ísak Andra.
„Ég held að Ágúst sé bara pirraður á að bæði þessi plön andstæðinga Stjörnunnar virkuðu.“