Fjallað var um það í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld að þrjátíu og fimm manns undir fimmtugu, sem hafa undirgengist meðferð á Vogi á árinu, hafi látið lífið vegna ofskömmtunar. Yfirlæknir á Vogi segir að ef þróunin heldur óbreytt áfram verði þeir hátt í tvöfalt fleiri um árslok.
Diljá Mist Einarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir þingmenn eins og aðra heyra ákall aðstandenda sem horft hafi á eftir ástvinum sínum, sem tapað hafi baráttunni við fíknisjúkdóma undanfarið.
„Það er ljóst að þrátt fyrir að stigin hafi verið mjög jákvæð skref undanfarið af heilbrigðisráðherra í þessum málflokki þá kemur fólk með fíknisjúkdóma enn að lokuðum dyrum í heilbrigðiskerfinu og fólk og ungt fólk er að deyja í hrönnum, á biðlistum, og það er bara fullkomlega óásættanlegt,“ segir Diljá Mist.
„Þessi skref sem heilbrigðisráðherra hefur verið að taka eru jákvæð en þau eru ekki nægjanleg. Hann hefur sagst ætla að skera upp herör gegn þessum faraldri meðal annars með því að samþætta þjónustu, leita til annarra aðila og ég held að það sé full þörf á því að leita til sveitarfélaga, annarra ráðuneyta, félagsþjónustunnar og bara samfélagsins alls eins og hann hefur bent á.“
Diljá segist munu halda áfram að beita sér fyrir málaflokknum á þingi.
„Ég hef gjarnan tekið þessi mál upp hér á þinginu. Þau standa mér mjög nærri og ég hef skrifað um það. Það er auðvitað mikilvægt starf hjá okkur þingmönnum að veita stjórnvöldum aðhald og ég mun gera það og beita mér ötullega fyrir þessum málaflokki,“ segir Diljá.
Viðhorfsbreyting hafi orðið gagnvart fíknisjúkdómum að undanförnu en áherslur stjórnvalda og fjármagn hafi ekki fylgt þeirri viðhorfsbreytingu nógu vel.
„Það er það sem aðstandendur hafa bent á, þeim finnst við bara taka þetta upp á tillidögum. En hvernig skýrum við annars að við séum sinnulaus gagnvart því að ungt fólk sé að deyja hér í svona miklu magni? Við verðum auðvitað bara að grípa til stórtækra aðgerða.“