Holmes var dæmd í meira en ellefu ára fangelsi fyrir að svíkja fjárfesta í Theranos í fyrra. Fall Holmes var hátt en henni hafði verið hampað sem frumkvöðli og sjálfsköpuðum milljarðamæringi. Hún hélt því fram að Theranos hefði þróað byltingarkennda tækni við blóðprufur sem krefðist aðeins eins blóðdropa úr sjúklingum. Lítill innistæða reyndist fyrir þeim fullyrðingum.
Dómarinn í málinu taldi að Holmes hefði ekki lagt fram sannfærandi gögn um að hún ætti að fá að ganga laus á meðan hún áfrýjar fangelsisdómi sínum. Niðurstaðan þýðir að Holmes, sem er 39 ára gömul, þarf að gefa sig fram til afplánunar 27. apríl.
AP-fréttastofan segir að Holmes geti kært úrskurð umdæmisdómarans. Ramesh „Sunny“ Balwani, næstráðandi Holmes hjá Theranos, vann slíka áfrýjun á dögunum en áfrýjunardómstóll sneri þeim úrskurði við. Réttað var yfir Holmes og Balwani hvoru í sínu lagi. Balwani hlaut tæplega þrettán ára fangelsisdóm fyrir sinn þátt í blekkingum Theranos.
Mál Holmes og Theranos vakti mikla athygli en um það hafa meðal annars verið gerðar heimildarmyndir og nú síðast leiknir þættir.