Í fréttum Stöðvar 2 mátti sjá magnaðar myndir sem Erlendur Bogason kafari tók síðastliðinn sunnudag. Síðdegis þann dag var hann ásamt fleirum að kafa eftir skeljum við Hjalteyri.

Erlendur lýsir því að hann hafi verið nánast uppi í fjöru þegar loðnutorfan birtist og synti hún alveg upp við yfirborð. Í fyrstu taldi hann að þetta væru eingöngu hængar, sem hann segir þekkjast á því að vera dekkri og stærri en hrygnan, en einnig á stærri raufarugga.
Fljótlega tók Erlendur eftir því að þarna var einnig ljósari kvenloðna. Á kafla myndbandsins sést hún neðar og vinstra megin meðan hængarnir halda hópinn hægra megin en þekkt er að kynin séu aðskilin í torfu.

Í fræðunum er mönnum kennt að loðnan hrygni einkum við Suður- og Suðvesturland síðla vetrar og drepist svo að mestu. Lengi hefur þó verið vitað að hún hrygnir einnig fyrir norðan og það seinna en loðnan fyrir sunnan. Hrygningarloðna norðanlands hefur þó verið talin óveruleg.
Í frétt Stöðvar 2 í marsmánuði árið 2020 kom fram að fiskifræðingar teldu sig sjá vísbendingar um breytt atferli loðnunnar og aukna hrygningu fyrir norðan.

Erlendur Bogason kafari segist einnig hafa haft spurnir af loðnu víðar fyrir Norðurlandi, bæði utar í Eyjafirði, í Þistilfirði og í Húnaflóa, en þessi mikli þéttleiki hennar við Hjalteyri vakti einnig athygli hans.
Miðað við myndirnar af loðnutorfunni verður þess kannski ekki langt að bíða að menn sjái loðnuflotann að veiðum á miðjum Eyjafirði.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2:
Fjallað var um vísbendingar um breytt atferli loðnunnar í þessari frétt Stöðvar 2 fyrir þremur árum:
Fyrir tveimur árum kafaði Erlendur niður í loðnutorfu í Faxaflóa og kvikmyndaði, sem sjá mátti í þessari frétt: