Teslurnar eru að gerðinni Y og verða að öllum líkindum mættar á göturnar í maí, að sögn Ásmundar Rúnars Ásmundssonar, aðstoðaryfirlögregluþjóns hjá lögreglunni á Vesturlandi.
„Við erum voðalega ánægðir með okkur, við erum fyrstir í Evrópu til að Nota Y-Tesluna. Við erum að kanna hvort hægt sé að nota Tesluna í almenna löggæslu. Þær verða sennilega fullbúnar í maí.,“ segir Ásmundur.

Teslukaupin séu hluti af kolefnisjöfnun hjá embættinu.
„Við erum að færa flotann yfir í rafmagn og tengiltvinnbíla. Svo erum við að kolefnisjafna í samstarfi við skógræktina og jarðskóga. Þetta er það sem ríkisstofnanir þurfa að gera og við stefnum á að vera komnir í núllið 2024.“
Ásmundur segir embættið hafa kynnt sér notkun notkun teslubifreiða í löggæslu í Bretlandi.
„Þeir hafa góða reynslu af þessu en öfunda okkur af raforkuverðinu,“ segir hann að lokum.