Að sögn lögreglu var Shanti Shaw, 64 ára, myrt og afhöfðuð með sveðju eftir að hafa heimsótt musterið.
Lögreglustjórinn Diganta Barah sagði í gær að mennirnir fimm hefðu lagt á ráðin um morðið en tólf átt aðild að því. Forsprakkinn, Pradeep Pathak, hefði skipulagt „fórnina“ á dánardegi bróður síns.
Samkvæmt gögnum yfirvalda á Indlandi hafa 103 mannfórnir verið skráðar frá 2014. Þær tengjast yfirleitt tilraunum til að friðþægja guði eða látna og eru algengari á strjálbýlum svæðum.
Á síðasta ári voru tveir menn handteknir fyrir að hafa myrt sex ára dreng í höfuðborginni Nýju-Delí. Mennirnir, sem báðir störfuðu í byggingariðnaði, sögðu barnið fórn til guðsins Shiva. Vonuðust þeir til þess að hún færði þeim ríkidæmi að launum.