Skoðun

Að taka ekki næsta skref

Eyrún B. Valsdóttir skrifar

Nokkur umræða hefur spunnist í kringum fyrirhugaða lokun upplýsinga- og ráðgjafarvefjarins Næsta skref.is. Sú ákvörðun að loka vefnum var öllum sem að komu erfið enda er hann í mikilli notkun meðal almennings, hjá símenntunarmiðstöðvum og innan formlega skólakerfisins.

Fræðslumiðstöð atvinnulífsins hefur allt frá upphafi verkefnisins 2013 haldið vefnum úti, en síðastliðin tvö ár meira af vilja en getu, eftir að fjárframlag til rekstursins kláraðist með öllu haustið 2021. Að halda úti alhliða upplýsingavef um störf og námsleiðir á Íslandi er nefnilega ekkert áhlaupsverk. Þar þarf að koma til ákveðin langtímahugsun, gæðatrygging á efni, reglulegar uppfærslur á notendaviðmóti og skipulegt samstarf atvinnulífs og menntakerfis. Slíkt kostar einfaldlega vinnu og peninga.

Óánægjuraddir vegna lokunar Næsta skrefs eru skiljanlegar. Vefurinn er til dæmis eitt lykilverkfæra í náms- og starfsráðgjöf auk þess sem tækifærin til áframhaldandi uppbyggingar eru óþrjótandi. Þar má bæði njóta góðs af því að tæknin, sem var ákveðinn fjötur um fót í upphafi, vinnur nú með okkur sem og reynslu nágrannaþjóða í þessum efnum sem margt má læra af.

Stjórn Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins var þungbært að taka þá ákvörðun að loka vefnum. Að halda honum úti ár eftir ár með lágmarkstilkostnaði er hins vegar jafn afleit niðurstaða til lengri tíma litið. Ekki er nema vika síðan fyrstu tillögur varðandi nauðsynlegar endurbætur á vefnum voru lagðar fram auk hugmynda um mikið breytt notendaviðmót sem myndi skapa Næstaskref.is sérstöðu á meðal slíkra vefsvæða.

Við höfum lengi kallað eftir aðkomu hins opinbera að framþróun þessa vefjar. Áhugann hefur ekki vantað, tækifærin eru augljós, fyrirmyndirnar víða um heim og notendahópurinn þegar til staðar. Biðin eftir svörum er þó orðin nokkuð löng og því sá stjórn Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins sig knúna til að ákveða lokun. Líkt og segir í niðurlagi tilkynningar vegna þessa, sem fór til hlutaðeigandi aðila, er hins vegar von okkar allra að sjálfsögðu sú að úr rætist þannig að aðgengi að réttum og viðeigandi upplýsingum um nám og störf verði áfram í boði fyrir nemendur, foreldra og ráðgjafa hvort sem það verður gert með áframhaldandi rekstri og þróun Næsta skrefs eða með því að leita annarra sambærilegra leiða.

Höfundur er formaður stjórnar Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins og framkvæmdastjóri Alþýðusambands Íslands.




Skoðun

Sjá meira


×