Vegarkaflinn verður lagður bundnu slitlagi og á verkinu að vera að fullu lokið fyrir 1. september 2024. Tilboðsfrestur rennur út þriðjudaginn 4. apríl næstkomandi. Það þýðir að ef Vegagerðin fær ásættanlegt tilboð ættu framkvæmdir að geta farið á fullt fyrir sumarið.
Heimamenn hafa í mörg ár ítrekað kvartað undan ástandi Vatnsnesvegar, ekki síst vegna skólabarna sem þurfi að hossast í skólabílnum eftir holóttum veginum. Þegar langlundargeðið var þrotið hófu þeir hópfjármögnun á Karolinafund fyrir tveimur árum í von um að koma verkinu í gang.
Þá sendi umboðsmaður barna bréf til innviðaráðherra í fyrra þar sem ráðherrann var hvattur til að bregðast við ófremdarástandi á Vatnsnesvegi og setja fjármagn í uppbyggingu vegarins. Sagði að ástand vegarins ylli skólabörnum sem ferðuðust um veginn vanlíðan og kvíða og gæti ógnað öryggi þeirra.

Jafnframt hefur verið bent á að umferð ferðamanna hafi snaraukist um Vatnsneshringinn, sem núna er auglýstur sem hluti Norðurstrandarleiðar. Ferðamenn streymi að Illugastöðum í selaskoðun en einnig til að skoða sögusvið morðsins á Natan Ketilssyni, sem leiddi til síðustu aftöku á Íslandi, þegar Agnes og Friðrik voru hálshöggvin.
Þetta eru ekki einu vegarbæturnar á hringnum. Á austanverðu nesinu, í Vesturhópi, sunnan við náttúruvættið Hvítserk, er verið að reisa nýja sautján metra langa brú yfir Vesturhópshólaá. Þar er jafnframt verið að leggja nýjan eins kílómetra langan vegarkafla auk þess sem 1,2 kílómetra langur kafli er endurbyggður. Þar kemur því nýtt slitlag á alls 2,2 kílómetra langan kafla.
Sumarið 2019 var gerður nýr 1,6 kílómetra vegarkafli við kirkjustaðinn Tjörn og lagður bundnu slitlagi. Vegstæðið var fært og nýr stokkur leysti af gamla einbreiða brú yfir Tjarnará. Brúin var niðri í árgili en vegurinn þar þótti varasamur með blindbeygjum.
Þrátt fyrir þessar framkvæmdir verður meginhluti Vatnsneshringsins áfram malarvegur eða um 65 kílómetrar.
Síðastliðið haust hvatti oddviti nágrannasveitarfélagsins Húnabyggðar til átaks í uppbyggingu sveitavega í þessari frétt Stöðvar 2: