Hlutabréf í fjármálafyrirtækjum hafa fallið í verði um allan heim eftir fall Silicon Valley Bank á föstudag og Signature Bank í gær. Gjaldþrot þeirra eru þau annað og þriðja stærsta vestanhafs á eftir Washington Mutual sem féll í bankahruninu árið 2008.
Bandaríkjastjórn ákvað að tryggja innistæður í báðum bönkum að fullu í gær. Inngrip yfirvalda í bankakerfið er það mesta frá því í hruninu. Ólíkt þá verður hvorugum banka þó bjargað með fjármunum skattgreiðenda.
Biden hét því að skattgreiðendur bæru engan kostnað af falli bankanna þegar hann ræddi við fréttamenn í Hvíta húsinu í dag. Stjórnendur yrðu látnir axla ábyrgð og reglur yrðu hertar.
„Við verðum að fá fullar skýringar á því sem gerðist. Bandaríkjamenn verða að hafa trú á því að bankakerfið sé öruggt,“ sagði forsetinn.