Í fréttum Stöðvar 2 mátti sjá Dash 8-flugvél Universal Hydrogen taka á loft frá alþjóðaflugvellinum í Moses Lake í Washington-ríki í Bandaríkjunum síðastliðinn fimmtudag. Í stað þess að smíða nýjar flugvélar frá grunni þróar Universal Hydrogen þá leið til orkuskipta að umbreyta hreyflum og eldsneytiskerfum svo vélarnar verði vetnisknúnar.

Til að gæta fyllstu varúðar í þessu fyrsta tilraunaflugi var þó aðeins annar hreyfillinn knúinn vetni en hinn venjulegu þotueldsneyti. Með viljayfirlýsingu frá árinu 2021 er Icelandair samstarfsaðili Universal Hydrogen og var með sinn sérfræðing á staðnum, Heiðu Njólu Guðbrandsdóttur, aðstoðarframkvæmdastjóra rekstrarsviðs.
Hún segir stemmninguna á flugvellinum hafa verið engu líka þegar flugmennirnir stigu frá borði að fluginu loknu. Þeim hafi verið fagnað eins og ofurhetjum.

„Það er líka magnað að sjá vél á flugi þar sem kemur bara vatnsgufa út úr mótornum en engin mengun,“ segir Heiða Njóla, en glöggir áhorfendur geta vonandi greint vatnsgufuna í sjónvarpsfréttinni sem fylgir.
„Og ég fékk einmitt tækifæri til að ræða þarna við flugmennina sem höfðu flogið vélinni. Auðvitað var fyrsta spurningin: Hvernig var tilfinningin?
Hann sagði orðrétt: Þetta var bara eins og að fljúga Dash 8,“ hefur Heiða eftir flugstjóranum.

Dash 8 er einmitt sú tegund sem Icelandair notar á innanlandsleiðum og einnig sú sem Landhelgisgæslan notar. Með reynsluflugi Universal Hydrogen varð þessi tegund stærsta flugvél sögunnar til að fljúga á vetni með efnarafali.
„Og meira að segja þá drógu þau af þegar þau voru komin í loftið. Þannig að þau flugu í rauninni nær eingöngu á vetninu. Það eru líka stór tímamót,“ segir Heiða.

Ráðamenn Universal Hydrogen stefna að því að hefja afhendingu á umbreyttum og vottuðum vetnisknúnum farþegaflugvélum árið 2025. En gætum við séð slíka umbreytingu á vélum Icelandair á næstu árum?
„Hver þróunin verður er auðvitað ekki gott að segja. En þetta er gríðarlega mikilvægur áfangi á þessari vegferð. Það hefur verið talað um það að vetnisflug á þessum áratug sé raunhæfur möguleiki,“ svarar Heiða Njóla Guðbrandsdóttir.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2:
Fulltrúi Universal Hydrogen kynnti verkefnið á Hringborði norðurslóða í Reykjavík í október í haust, sem sjá má í þessari frétt: