Valur sækir sænska liðið Ystad heim og er leikurinn í beinni útsendingu klukkan 17:45 á Stöð 2 Sport.
Valsmenn eru fyrir leiki dagsins í 3. sæti síns riðils, og eitt af fjórum liðum sem komast upp úr riðlinum.
Þeir þurfa að vinna Ystad með að lágmarki 3-4 marka mun til að ná 2. sætinu af sænska liðinu, eftir að hafa tapað 32-29 fyrir Ystad í desember.
Ef að Valsmenn ná ekki að landa sigri er mögulegt að þeir missi ungverska liðið FTC upp fyrir sig og fari niður í 4. sæti, en aldrei neðar. Og þetta getur aðeins gerst ef að FTC vinnur topplið Flensburg í kvöld.
Sextán liða úrslitin verða spiluð 21. og 28. mars, og mun Valur spila þar við lið úr A-riðli. Þrjú lið koma þar til greina.

Ef að Valur nær 2. sæti mætir liðið svissnesku meisturunum í Kadetten Schaffhausen, undir stjórn Aðalsteins Eyjólfssonar og með hornamanninn funheita Óðin Þór Ríkharðsson innanborðs.
Ef að Valur endar í 3. eða 4. sæti verður andstæðingurinn franska liðið Montpellier eða þýska liðið Göppingen. Líklegast er að Montpellier endi í 1. sæti A-riðils, og mæti 4. sæti B-riðils, en Göppingen getur stolið efsta sæti A-riðils með níu marka sigri gegn Montpellier á heimavelli í kvöld.
Eins og staðan er núna eru því mestar líkur á að Valur mæti Göppingen í 16-liða úrslitum en bæði Valsmenn og leikmenn Göppingen gætu breytt því í kvöld.