Í morgun var greint frá því tuttugu og sjö líkum hafi skolað upp í fjöru í sumarleyfisstaðnum Steccato di Cutro í Kalabríu. Fleiri lík sáust á reki í sjónum og enn er leitað eftirlifenda í erfiðum öldugangi.
Talið er að um 150 manns hafi verið í ofhlaðnum bátnum sem klofnaði í sundur. Viðbraðgsaðilar á Ítalíu greina frá því að nokkurra mánaða gamalt barn sé á meðal þeirra látnu. „Tugir manns drukknuðu, þar á meðal börn. Margra er saknað. Calabria er í sárum eftir þennan harmleik,“ segir héraðsstjórinn, Roberto Occhiuto. „Sjórinn heldur áfram að skila af sér líkum.“
Því er talið nær öruggt að tala látinna eigi eftir að hækka.

Flóttafólkið er sagt vera frá Íran, Pakistan og Afganistan. Fjöldi flóttafólks reynir að komast til Evrópu yfir Miðjarðarhafið á hverju ári og er sjóleiðin sögð ein sú hættulegasta í heimi.
Talið er að rúmlega hundrað þúsund manns hafi komist sjóleiðina til Ítalíu yfir Miðjarðarhafið á síðasta ári. Frá árinu 2014 er talið að um tuttugu þúsund manns hafi látið lífið á leið sinni yfir Miðjarðarhafið. Ríkisstjórn Ítalíu hefur lögfest reglur sem kveða á um að sekta megi samtök sem leiti að og bjargi flóttafólki innan ítölsku landhelginnar, og gera skip þeirra upptæk. Forsætisráðherrann Georgia Meloni hét því í kosningabaráttu sinni á síðasta ári að binda enda á fyrrgreindan innflutning flóttamanna.