Halldór Benjamín Þorbergsson, formaður Samtaka atvinnulífsins, staðfestir í samtali við fréttastofu að stefna hafi borist en vill ekki tjá sig frekar um málið að svo stöddu.
Fram kemur í tilkynningu frá ASÍ að sambandið telji stjórn SA óheimilt að taka ákvörðun um verkbann. Ójafnt atkvæðavægi félagsmanna Samtaka atvinnulífsins í kosningunni um verkbannið eigi sér ekki lagastoð.
Þá kemur enn fremur fram að sambandið telji verkfallsboðunina ólöglega. Allir félagsmenn hafi verið á kjörskrá, burtséð frá því hvort þeir starfi á félagssvæði Eflingar. Þá séu einnig tilteknir formgallar á verkfallsboðun SA sem ASÍ segja styðja málið enn frekar.
Ástráður Haraldsson, settur ríkissáttasemjari, segir í samtali við fréttastofu að stefnan snerti samningsviðræður milli Eflingar og Samtaka atvinnulífsins ekki með beinum hætti, en segist lítið geta gefið upp eins og staðan er í dag.
SA samþykktu verkbann með miklum meirihluta
Aðildarfyrirtæki Samtaka atvinnulífsins samþykktu verkbannið á félagsmenn Eflingar með afgerandi meirihluta hinn 22. febrúar síðastliðinn. 94,73 prósent greiddu atkvæði með verkbanni og einungis 3,32 prósent greiddu atkvæði á móti. Að óbreyttu á verkbannið að hefjast 2. mars.
Halldór Benjamín sagði í liðinni viku að verkbannið væri síðasta úrræði til að knýja fram samningsgerð í kjaradeilunni. Verkbannið á að taka til tuttugu þúsund manns sem starfa eftir kjarasamningum Eflingar og SA á almennum vinnumarkaði.
Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar og Halldór Benjamín Þorbergsson framkvæmdastjóri SA lýstu því yfir í Pallborði Vísis á föstudaginn að þau væru tilbúin að aflýsa eða fresta bæði boðuðu verkfalli og vinnubanni ef boð komi frá sáttasemjara um að tekinn verði upp þráður í samningaviðræðum.
Settur ríkissáttasemjari, sagði í samtali við fréttastofu í dag að unnið væri að nýrri miðlunartillögu. Hann hafi hins vegar ekki tekið ákvörðun um boðun nýs fundar í deilunni. Þá sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra eftir ríkisstjórnarfund í gær ljóst að boðað verkbann Samtaka atvinnulífsins myndi hafa mikil áhrif. Það væri þó í höndum deiluaðila að ná saman.
Hvorki hefur náðst í Kristján Þórð Snæbjarnarson, forseta ASÍ, né Sólveigu Önnu Jónsdóttur, formanns Eflingar, við vinnslu fréttarinnar.
Fréttin hefur verið uppfærð.