Í yfirlýsingu frá fjölskyldu Lee segir að þau séu miður sín vegna fréttanna, en bandarískir fjölmiðlar segja hann hafa svipt sig lífi með skotvopni á skrifstofu sinni á fimmta breiðstræti í Manhattan í New York í gær.
Forbes hefur áætlað að auðæfi Lee séu metin á um tvo milljarða Bandaríkjadala, um 290 milljarða íslenskra króna á núvirði.
Í frétt BBC segir að lögregla hafi verið kölluð út á skrifstofu Lee um klukkan 11 í gærdag að staðartíma eftir tilkynningu. Lee var úrskurðaður látinn á staðnum.
Auk þess að vera brautryðjandi á sviði skuldsettra yfirtaka í viðskiptalífinu var Lee þekktur fyrir að hafa eignast drykkjarframleiðandann Snapple árið 1992 og selja fyrirtækið til Quaker Oats fyrir 1,7 milljarða dala. Var söluupphæðin 32 sinnum hærri en kaupverðið tveimur árum fyrr.
Bandarískir fjölmiðlar segja hann einnig hafa verið þekktan fyrir velgjörðarstörf sín, meðal annars með því styrkja listir og starf Harvard-háskóla.
Lee lætur eftir sig eiginkonuna Ann Tenenbaum og fimm börn.