Handbolti

Álaborg öruggt í umspil eftir sigur á Elverum

Smári Jökull Jónsson skrifar
Aron Pálmarsson og félagar hans unnu sigur á Elverum í kvöld.
Aron Pálmarsson og félagar hans unnu sigur á Elverum í kvöld. Vísir/Getty

Aron Pálmarsson og félagar hans í danska liðinu Álaborg unnu sigur á liði Orra Freys Þorkelssonar Elverum í Meistaradeildinni í handbolta í kvöld. Álaborg er nú öruggt um sæti í umspili keppninnar.

Fyrir leikinn í kvöld var ljóst að Álaborg væri öruggt með sæti í umspili Meistaradeildarinnar með sigri en liðið sat í sjötta sæti B-riðils með níu stig, þremur stigum á undan Celje Lasko. 

Tvö efstu lið í hvorum riðli fara beint áfram í átta liða úrslit keppninnar en liðin í 3.-6.sæti leika umspilsleiki um hin fjögur sætin í 8-liða úrslitum.

Elverum, sem var í neðsta sæti B-riðils fyrir leikinn í kvöld, byrjaði betur og komst í 3-1 í upphafi leiks sem fór fram í Danmörku. Álaborg náði þó frumkvæðinu fljótlega og komust mest sjö mörkum yfir í fyrri hálfleik en staðan að honum loknum var 17-12 Álaborg í vil.

Í seinni hálfleik náði Eleverum mest að minnka muninn niður í fjögur mörk í stöðunni 26-22 og í raun aldrei spurning hvar sigurinn myndi enda.

Lokatölur 31-24 Álaborg í vil sem þar með geta ekki endað neðar en í sjötta sæti síns riðils. Aron Pálmarsson skoraði fimm mörk úr átta skotum fyrir Álaborg í kvöld en Orri Freyr Þorkelsson skoraði tvö mörk fyrir Elverum.

Ein umferð er eftir af riðlakeppninni en umspilsleikirnir fara fram í lok mars.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×