Neytendur

Hækkar vexti vegna stýri­vaxta­hækkana Seðla­bankans

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Íslandsbanki tekur af skarið og hækkar vexti í samræmi við stýrivaxtahækkanir Seðlabankans.
Íslandsbanki tekur af skarið og hækkar vexti í samræmi við stýrivaxtahækkanir Seðlabankans. Vísir/Vilhelm

Íslandsbanki hefur tekið af skarið og hækkað vexti í samræmi við stýrivaxtahækkun Seðlabankans, sem var kynnt 8. febrúar síðastliðinn. Yfirdráttarvextir, breytilegir vextir óverðryggða húsnæðislána, breytilegir óverðtryggðir kjörvextir og fleiri tegundir vaxta hækka um 0,5 prósentustig í byrjun næstu viku.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá bankanum. Þar segir að vextir bankans taki breytingum 20. febrúar, eða á mánudag, og vextir Ergo breytist 24. febrúar, eða næstkomandi föstudag. 

Vakin er athygli á því að í skilmálum óverðtryggða húsnæðislána með breytilegum vöxtum, sem veitt voru á tilgreindu tímabili á árunum 2012 til 2021, eru ákvæði sem heimila viðskiptavinum að sækja um vaxtagreiðsluþak. 

Vaxtabreytingarnar eru eftirfarandi:

  • Vextir á óverðtryggðum innlánsreikningum hækka um 0,5 prósentustig.
  • Breytilegir vextir óverðtryggðra húsnæðislána hækka um 0,5 prósentustig.
  • Breytilegir óverðtryggðir kjörvextir hækka um 0,5 prósentustig.
  • Breytilegir óverðtryggðir kjörvextir Ergo og vextir bílalána og bílasamninga hækka um 0,5 prósentustig. 
  • Yfirdráttarvextir einstaklinga og fyrirtækja hækka um 0,5 prósentustig.

Fram kemur í tilkynningu frá bankanum að breytingar á lánum sem falla undir lög um neytendalán eða lög um fasteignalán til neytenda taki gildi í samræmi við skilmála þeirra og tilkynningar þar að lútandi. Þá muni breytingar á óverðtryggðum breytilegum vöxtum húsnæðislána taka gildi 1. mars næstkomandi. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×