Handbolti

Þrjú mörk Bjarka þegar Veszprem tapaði heima gegn GOG

Smári Jökull Jónsson skrifar
Bjarki Már var besti maður Íslands í kvöld.
Bjarki Már var besti maður Íslands í kvöld. Vísir/Vilhelm

Dönsku meistararnir í GOG gerðu sér lítið fyrir og lögðu Veszprem, lið Bjarka Más Elíssonar, þegar liðin mættust í Meistaradeild Evrópu í handknattleik í Ungverjalandi í kvöld.

Fyrir leikinn í kvöld var Veszprem í öðru sæti A-riðils með sextán stig eftir tíu umferðir og hafði aðeins tapað einum leik í riðlakeppninni, á útivelli gegn króatíska liðinu Zagreb. GOG var hins vegar í fimmta sæti með níu stig.

Dönsku gestirnir byrjuðu leikinn af miklum krafti. Þeir komust í 4-0 en Veszprem var búið að jafna metin í 8-8 áður en fyrri hálfleikur var hálfnaður. Mikið var skorað í fyrri hálfleik en staðan að honum loknum var 21-20 heimamönnum í vil.

Fljótlega í síðari hálfleik náði GOG yfirhöndinni á ný. Í stöðunni 24-24 skoruðu þeir fjögur mörk í röð og náðu ágætu forskoti. Veszprem jafnaði á ný þegar tíu mínútur voru eftir og lokamínúturnar voru æsispennandi.

Manuel Strlek jafnaði í 36-36 fyrir Veszprem þegar rúmar tvær mínútur voru eftir en Emil Madsen kom GOG yfir á ný. Það reyndist sigurmarkið. Kentin Mahe átti skot sem fór forgörðum og Veszprem tókst ekki að jafna metin.

Lokatölur 37-36 og GOG fagnaði frábærum sigri.

Eins og áður segir skoraði Bjarki Már Elísson þrjú mörk fyrir Veszprem í kvöld. Petar Nenadic skoraði átta mörk fyrir heimamenn líkt og þeir Madsen og Jerry Tollbring fyrir GOG.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×