Skoðun

Og hvað svo?

Tryggvi Sch. Thorsteinsson skrifar

Hann var ábúðarfullur embættismaður Reykjavíkurborgar sem var í beinni útsendingu í Kastljósinu þann 13. okt síðastliðinn. „Ég er bara miður mín“ voru hans fyrstu viðbrögð eftir að hafa horft á tvö innslög um kynþáttafordóma í skólum á Ísland. Jafnframt upplýsti hann seinna í viðtalinu að starfshópur um aðgerðaráætlun gegn rasisma í skóla- og frístundastarfi ætti að skila af sér sínu verki í nóvember. Í kjölfarið af þessari umfjöllun stóð foreldrafélag í RVK fyrir fræðslukvöldi fyrir foreldra um kynþáttafordóma. Daginn fyrir umrætt fræðslukvöld var formanni Skóla- og frístundaráðs RVK bent á að flott gæti verið ef sá aðili mætti til að fræðast og um leið senda ákveðin skilaboð út í samfélagið. Svarið var, „Nei ég er að fara í matarboð sem búið var að skippuleggja fyrir löngu“.

Þetta er nefnilega því miður málið. Viljinn til að uppræta þessa meinsemd er svo lítill í íslensku samfélagi, forgangurinn svo lágur. Hversu oft höfum við ekki heyrt: „mikið er sorglegt að heyra þetta“, „ég bara trúi þessu ekki“ og síðan ekki söguna meir.

Þegar skólabyggingar standast ekki kröfur þá ganga forsvarmenn foreldrafélaganna fram fyrir skjöldu hver í kapp við annan, koma fram í fjölmðlum og lýsa þar yfir óánægju og óviðunandi ástandi ásamt því að skora á yfirvöld að gera eitthvað í málunum strax.

Mér vitanlega hefur því miður ekkert foreldrafélag lýst yfir óánægju sinni með hvernig haldið er utan um þau mál er varðar kynþáttafordóma né sett þrýsting á að viðkomandi yfirvöld bregðist ekki seinna en strax við og geri eitthvað í málunum - sem því miður koma reglulega upp.

Mætingin á fræðslukvöldið síðasta haust var skammarlega léleg, ég fékk tölvupóst frá skólanum viku fyrir jól þar sem mér var tilkynnt að barnið mitt hefði orðið fyrir rasískri orðræðu. „Var þetta formlega skráð?“ spurði ég, „nei við lítum á að tilkynningin í tölvupóstinum jafngildi skráningu“.

Nú er febrúar 2023, á virkilega að halda áfram að gera ekki neitt?

Höfundur er áhugamaður um samfélag án kynþáttafordóma.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×