Handbolti

Lærisveinar Arons nældu í sæti í milliriðli

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Aron Kristjánsson og hans menn eru á leið í milliriðil.
Aron Kristjánsson og hans menn eru á leið í milliriðil. Getty/Sven Hoppe

Aron Kristjánsson og lærisveinar hans í bareinska landsliðinu í handbolta nældu sér í sæti í milliriðli heimsmeistaramótsins í handbolta er liðið vann nauman tveggja marka sigur gegn Belgíu í lokaumferð H-riðils í kvöld, 30-28. 

Barein endar því með þrjú stig í jafn mörgum leikjum í riðlinum, einu stigi meira en Belgía sem endar með tvö stig. Þrátt fyrir tapið eiga Belgar enn góðan möguleika á sæti í milliriðli, en til að liðið sitji eftir með sárt ennið þarf Túnis að vinna sigur gegn heimsmeisturum Danmerkur.

Aron var ekki eini Íslendingurinn sem var í eldlínunni í leikjunum sem var að ljúka á heimsmeistaramótinu því Alfreð Gíslason og lærisveinar hans í þýska landsliðinu unnu einnig öruggan 16 marka sigur gegn Alsír í E-riðli á sama tíma, 37-21. Sigurinn þýðir að Þjóðverjar vinna riðilinn með fullt hús stiga og fara því með fjögur stig í milliriðil.

Þá tryggðu Argentínumenn sér einnig sæti í millirðili er liðið vann níu marka sigur gegn Norður-Makedóníu í hreinum úrslitaleik um þriðja sæti F-riðils, 35-26, og Egyptar unnu afar sannfærandi 19 marka sigur gegn Bandaríkjamönnum í G-riðli, 35-16.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×