Parið greinir frá komu drengsins í sameiginlegri færslu á Instagram. Þar kemur fram að drengurinn hafi fæðst þann 12. janúar, öllum heilsist vel og foreldrarnir séu yfir sig ástfangnir.
Drengurinn er annað barn foreldra sinna, því fyrir eiga þau hinn fimm ára gamla Krumma.
Arnmundur útskrifaðist sem leikari frá LHÍ árið 2013 og hefur verið áberandi í hinum ýmsu verkum síðan. Ellen Margrét útskrifaðist sem leikkona árið 2021. Hún hafði verið dansari í Íslenska dansflokknum til ársins 2016 þegar hún ákvað að demba sér út í leiklistina.
Arnmundur og Ellen voru gestir í hlaðvarpinu Betri helmingnum þar sem þau rifjuðu upp sín fyrstu kynni. Þau höfðu tekið eftir hvort öðru á göngum Borgarleikhússins þegar Addi ákvað að laumast inn á æfingu hjá Íslenska dansflokknum til þess að horfa á Ellen. Hann heillaðist strax af útgeislun hennar og ákvað að hringja í hana og bjóða henni á stefnumót. Þau hafa verið saman allar götur síðan og eru nú tveimur drengjum ríkari.