Strákunum okkar var skellt harkalega niður á jörðina í gær og tapið gegn Ungverjum var ansi sárt. Guðmundur hefur fengið ansi mikla gagnrýni eftir leikinn fyrir að spila á fáum mönnum og Henry Birgir Gunnarsson spurði Guðmund að því í dag hvort hann hefði átt að grípa fyrr í taumana.
„Já, maður getur alltaf skoðað það. Við erum búnir að kíkja á það og það er hluti af því sem maður gerir eftir þetta. Það eru ákveðnir hlutir, án þess að ég ætli að fara út í smáatriði, en vissulega eru hlutir sem maður skoðar eftir á að hyggja,“ sagði Guðmundur í samtali við Henry Birgi í Svíþjóð.
„Við erum á bekknum í núinu og svo er auðvelt að segja eitthvað eftir á sem maður vissi ekki. Það eru ákveðnir hlutir jú en mér finnst það ekki margir hlutir.“
Ísland hefur aðeins notað níu útileikmenn á mótinu til þessa og þar á meðal er Janus Daði Smárason sem aðeins hefur leikið í sex mínútur. Af hverju hefur Guðmundur ekki rúllað meira á liðinu?
„Mér finnst við hafa náð að gera mjög vel til dæmis gegn Portúgal með þessa uppstillingu. Liðið er að spila stórkostlega mjög lengi í þessum leik og þetta er það sem ég veðjaði á í þessum tveimur leikjum, ég skal bara játa það.“
Á morgun leikur íslenska liðið gegn Suður-Kóreu í leik sem Ísland bæði á og verður að vinna en Kóreumenn hafa tapað báðum leikjum sínum á mótinu til þessa. Guðmundur segir að fleiri leikmenn muni fá tækifæri í þeim leik.
„Að einhverju leyti já, það var alltaf planið í sjálfu sér.“
Allt viðtalið við Guðmund má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.