Handbolti

Stór­sigur hjá Frökkum en Portúgal lenti í vand­ræðum með Suður-Kóreu

Smári Jökull Jónsson skrifar
Nikola Karabatic skoraði eitt mark fyrir Frakka í stórsigri gegn Sádi Arabíu.
Nikola Karabatic skoraði eitt mark fyrir Frakka í stórsigri gegn Sádi Arabíu. Vísir/Getty

Portúgal lenti í vandræðum með Suður-Kóreu í riðli Íslendinga á heimsmeistaramótinu í handknattleik í dag. Frakkar unnu hins vegar stórsigur gegn Sádi Arabíu.

Portúgal og Suður-Kórea eru eins og flestir vita með Íslendingum í D-riðli á heimsmeistaramótinu en fyrir leikinn í dag var búist við öruggum sigri Portúgala enda tapaði Suður-Kórea stórt í sínum fyrsta leik.

Sigurinn í dag var hins vegar torsóttur. Þeir leiddu 15-12 í hálfleik og aðeins munaði einu marki á liðunum þegar rúmar tíu mínútur voru eftir. Portúgal skoraði hins vegar síðustu sjö mörk leiksins og vann að lokum 32-24.

Frakkar léku á sama tíma gegn Sádi Arabíu. Sá leikur varð aldrei spennandi. Frakkar voru 24-14 yfir í hálfleik og unnu átján marka sigur að lokum, lokatölur 42-24.

Brasilía verður einn af mótherjum Íslands í milliriðli en þeir unnu 35-24 sigur á Úrúgvæ í C-riðli í dag. Brasilía tapaði fyrir Svíum í fyrsta leik og mæta Grænhöfðaeyjum í lokaumferð riðilsins.

Þá unnu Svartfellingar 34-31 sigur á Íran í A-riðli. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×