Það er mikil þensla í atvinnulífinu á Austurlandi eins og í öðrum landshlutum, alls staðar vantar fólk til starfa. Málið kemur oft til umfjöllunar í sveitarstjórn Múlaþings en ástandið er sérstaklega slæmt á Egilsstöðum og á fjörðunum þar í kring.
„Hér hefur verið má segja frá kreppu ekkert atvinnuleysi verið hér. Það kemur líka til af því að álverið á Reyðarfirði er mannaflafrekt og afleiddur iðnaður í kringum álverið er líka mannaflsfrekur. Hér getum við bætt við alveg helling af starfsfólki í viðbót já,“ segir Jónína Brynjólfsdóttir, forseti sveitarstjórnar Múlaþings.
En hvar vantar helst starfsfólk?
„Það hefur verið mikill skortur í ferðaþjónustu en annars held ég að það vanti starfsmenn hér alls staðar. Ég held að það vanti hárgreiðslufólk, snyrtifólk, okkur vantar smiði, rafvirkja og okkur vantar líka skrifstofufólk. Okkur vantar bara fólk alls staðar,“ segir Jónína.
En hvað heldur Jónína að þetta séu mörg störf, sem vantar að manna núna?
„Ég held að við gætum hæglega dælt kannski fimm hundruð manns inn á markaðinn og við myndum ekki finna fyrir því, það myndi renna ljúft inn í þann iðnað og starfsemi, sem er hér í gangi.“
En áttu húsnæði undir þetta fólk?
„Nei, ekki enn þá en við erum í uppbyggingarfasa núna,“ segir Jónína.
