Umfjöllun: Þýskaland - Ísland 33-31 | Herslumuninn vantaði upp á aðra endurkomu Ingvi Þór Sæmundsson skrifar 8. janúar 2023 16:20 Sigvaldi Guðjónsson skorar eitt átta marka sinna gegn Þýskalandi. getty/Marvin Ibo Guengoer Íslenska karlalandsliðið í handbolta tapaði fyrir Þýskalandi, 33-31, í seinni vináttulandsleik þjóðanna í dag. Ómar Ingi Magnússon og Aron Pálmarsson voru hvíldir hjá Íslandi í dag. Líkt og í gær lenti Ísland illa undir en vann sig aftur inn í leikinn. Að þessu sinni var Þýskaland hins vegar sterkara á lokakaflanum. Juri Knorr fór á kostum í þýska liðinu og skoraði þrettán mörk. Andreas Wolff var einnig góður í markinu og varði fimmtán skot, eða 43 prósent þeirra skota sem hann fékk á sig. Juri Knorr héldu engin bönd í þýsku sókninni.getty/Martin Rose Sigvaldi Guðjónsson var ólíkur sjálfum sér í gær en frábær í dag og skoraði átta mörk úr níu skotum. Viggó Kristjánsson skoraði einnig átta mörk og gaf átta stoðsendingar. Gísli Þorgeir Kristjánsson var með fimm mörk. Viktor Gísli Hallgrímsson varði þrettán skot (33 prósent) en þau töldu ekki öll þar sem Þjóðverjar fengu fjölmörg vítaköst eftir vörslur hans. Björgvin Páll Gústavsson varði þrjú skot (33 prósent). Íslenska vörnin var slök í leiknum fyrir utan fyrsta stundarfjórðunginn í seinni hálfleik. Og þótt Íslendingar hafi skorað 31 mark var sóknarleikurinn misjafn. Skotnýtingin var til að mynda aðeins 61 prósent gegn 72 prósentum hjá Þjóðverjum. Johannes Golla, fyrirliði þýska liðsins, var öflugur í dag.getty/Marvin Ibo Guengoer Þótt Þýskaland hafi verið sterkara í leiknum í dag mátti samt lítið út af bregða og línu- og hornafærin, sem og tvö vítaköst, sem Ísland klikkaði á reyndust dýr. Línuspilið var lítið og Þjóðverjar þurftu að hafa litlar áhyggjur af íslensku línumönnunum í dag. Arnar Freyr Arnarsson spilaði mest þeirra en skoraði aðeins eitt mark úr þremur skotum. Frammistaða hans er áhyggjuefni en svo sem ekki nýtt áhyggjuefni. Eftir jafnar upphafsmínútur náðu Þjóðverjar frumkvæðinu um miðbik fyrri hálfleiks. Viktor Gísli varði slatta af skotum en nánast undantekningarlaust var dæmt vítakast sem Knorr skoraði úr. Hann gerði níu mörk í fyrri hálfleik, þar af sex úr vítum. Á meðan töldu vörslur Wolffs. Íslendingar voru á hælunum í vörninni og Þjóðverjar unnu stöðuna einn á móti einum trekk í trekk. Ýmir Örn Gíslason og Elliði Snær Viðarsson voru ólíkir sjálfum sér og allt lak í gegnum miðja vörnina. Viggó Kristjánsson lék nánast allan leikinn í stöðu hægri skyttu í fjarveru Ómars Inga Magnússonar.getty/Marvin Ibo Guengoer Sigvaldi kom Íslandi yfir, 7-8, þegar hann skoraði eftir hraðaupphlaup. Þýskaland átti þá frábæran kafla þar sem liðið skoraði sjö mörk gegn einu og komst í 14-9. Elvar Ásgeirsson átti afleita innkomu á þessum tíma, tapaði boltanum, átti slæmt skot og fékk á sig vítakast. Elvar Örn Jónsson minnkaði muninn í 17-14 og fiskaði Þjóðverja af velli þegar skammt var til hálfleiks. Í stað þess að nýta sér meðbyrinn gerðist hið þveröfuga, Þjóðverjar skoruðu tvö síðustu mörk fyrri hálfleiks og leiddu að honum loknum, 19-14. Julian Köster brýtur á Gísla Þorgeiri Kristjánssyni.getty/Marvin Ibo Guengoer Janus Daði Smárason, sem átti frábæra innkomu í gær, byrjaði seinni hálfleikinn og hann hleypti nýju lífi í íslensku sóknina. Vörnin var einnig mun sterkari en í fyrri hálfleik. Knorr kom Þýskalandi í 23-20 með sínu tíunda marki en Ísland svaraði með þremur mörkum í röð og jafnaði, 23-23. Liðin héldust í hendur næstu mínútur og við tók spennandi lokakafli. Þar reyndust Þjóðverjar sterkari. Þeir fundu lausnir við varnarleik Íslands og hinum megin var Wolff erfiður. Þjóðverjar voru skynsamir á lokakaflanum og lönduðu tveggja marka sigri, 33-31. Andreas Wolff átti leiðinlega góðan leik í þýska markinu.getty/Martin Rose Einn sigur og eitt tap er niðurstaðan út úr þessum tveimur leikjum við Þýskaland en frammistaðan er kannski smá áhyggjuefni. Góðu kaflarnir voru til staðar en þeir slæmu voru fleiri. Vörnin var lengst af slök, markvarslan misjöfn og íslenska liðið á enn talsvert inni í sókninni. Þó ber vissulega að taka það með í reikninginn að Ómar Ingi og Aron voru fjarverandi í dag. Guðmundur Guðmundsson hefur allavega nóg til að hugsa um og greina fram að fyrsta leik Íslands á HM sem er gegn Portúgal á fimmtudaginn. Landslið karla í handbolta HM 2023 í handbolta
Íslenska karlalandsliðið í handbolta tapaði fyrir Þýskalandi, 33-31, í seinni vináttulandsleik þjóðanna í dag. Ómar Ingi Magnússon og Aron Pálmarsson voru hvíldir hjá Íslandi í dag. Líkt og í gær lenti Ísland illa undir en vann sig aftur inn í leikinn. Að þessu sinni var Þýskaland hins vegar sterkara á lokakaflanum. Juri Knorr fór á kostum í þýska liðinu og skoraði þrettán mörk. Andreas Wolff var einnig góður í markinu og varði fimmtán skot, eða 43 prósent þeirra skota sem hann fékk á sig. Juri Knorr héldu engin bönd í þýsku sókninni.getty/Martin Rose Sigvaldi Guðjónsson var ólíkur sjálfum sér í gær en frábær í dag og skoraði átta mörk úr níu skotum. Viggó Kristjánsson skoraði einnig átta mörk og gaf átta stoðsendingar. Gísli Þorgeir Kristjánsson var með fimm mörk. Viktor Gísli Hallgrímsson varði þrettán skot (33 prósent) en þau töldu ekki öll þar sem Þjóðverjar fengu fjölmörg vítaköst eftir vörslur hans. Björgvin Páll Gústavsson varði þrjú skot (33 prósent). Íslenska vörnin var slök í leiknum fyrir utan fyrsta stundarfjórðunginn í seinni hálfleik. Og þótt Íslendingar hafi skorað 31 mark var sóknarleikurinn misjafn. Skotnýtingin var til að mynda aðeins 61 prósent gegn 72 prósentum hjá Þjóðverjum. Johannes Golla, fyrirliði þýska liðsins, var öflugur í dag.getty/Marvin Ibo Guengoer Þótt Þýskaland hafi verið sterkara í leiknum í dag mátti samt lítið út af bregða og línu- og hornafærin, sem og tvö vítaköst, sem Ísland klikkaði á reyndust dýr. Línuspilið var lítið og Þjóðverjar þurftu að hafa litlar áhyggjur af íslensku línumönnunum í dag. Arnar Freyr Arnarsson spilaði mest þeirra en skoraði aðeins eitt mark úr þremur skotum. Frammistaða hans er áhyggjuefni en svo sem ekki nýtt áhyggjuefni. Eftir jafnar upphafsmínútur náðu Þjóðverjar frumkvæðinu um miðbik fyrri hálfleiks. Viktor Gísli varði slatta af skotum en nánast undantekningarlaust var dæmt vítakast sem Knorr skoraði úr. Hann gerði níu mörk í fyrri hálfleik, þar af sex úr vítum. Á meðan töldu vörslur Wolffs. Íslendingar voru á hælunum í vörninni og Þjóðverjar unnu stöðuna einn á móti einum trekk í trekk. Ýmir Örn Gíslason og Elliði Snær Viðarsson voru ólíkir sjálfum sér og allt lak í gegnum miðja vörnina. Viggó Kristjánsson lék nánast allan leikinn í stöðu hægri skyttu í fjarveru Ómars Inga Magnússonar.getty/Marvin Ibo Guengoer Sigvaldi kom Íslandi yfir, 7-8, þegar hann skoraði eftir hraðaupphlaup. Þýskaland átti þá frábæran kafla þar sem liðið skoraði sjö mörk gegn einu og komst í 14-9. Elvar Ásgeirsson átti afleita innkomu á þessum tíma, tapaði boltanum, átti slæmt skot og fékk á sig vítakast. Elvar Örn Jónsson minnkaði muninn í 17-14 og fiskaði Þjóðverja af velli þegar skammt var til hálfleiks. Í stað þess að nýta sér meðbyrinn gerðist hið þveröfuga, Þjóðverjar skoruðu tvö síðustu mörk fyrri hálfleiks og leiddu að honum loknum, 19-14. Julian Köster brýtur á Gísla Þorgeiri Kristjánssyni.getty/Marvin Ibo Guengoer Janus Daði Smárason, sem átti frábæra innkomu í gær, byrjaði seinni hálfleikinn og hann hleypti nýju lífi í íslensku sóknina. Vörnin var einnig mun sterkari en í fyrri hálfleik. Knorr kom Þýskalandi í 23-20 með sínu tíunda marki en Ísland svaraði með þremur mörkum í röð og jafnaði, 23-23. Liðin héldust í hendur næstu mínútur og við tók spennandi lokakafli. Þar reyndust Þjóðverjar sterkari. Þeir fundu lausnir við varnarleik Íslands og hinum megin var Wolff erfiður. Þjóðverjar voru skynsamir á lokakaflanum og lönduðu tveggja marka sigri, 33-31. Andreas Wolff átti leiðinlega góðan leik í þýska markinu.getty/Martin Rose Einn sigur og eitt tap er niðurstaðan út úr þessum tveimur leikjum við Þýskaland en frammistaðan er kannski smá áhyggjuefni. Góðu kaflarnir voru til staðar en þeir slæmu voru fleiri. Vörnin var lengst af slök, markvarslan misjöfn og íslenska liðið á enn talsvert inni í sókninni. Þó ber vissulega að taka það með í reikninginn að Ómar Ingi og Aron voru fjarverandi í dag. Guðmundur Guðmundsson hefur allavega nóg til að hugsa um og greina fram að fyrsta leik Íslands á HM sem er gegn Portúgal á fimmtudaginn.
Uppgjörið: Georgía - Ísland 25-30 | Íslenska liðið spýtti í lófana og gerði nóg í Georgíu Handbolti
Uppgjörið: Georgía - Ísland 25-30 | Íslenska liðið spýtti í lófana og gerði nóg í Georgíu Handbolti