Már Kristjánsson forstöðumaður lyflækninga-og bráðaþjónustu á Landspítalanum segir óvenju mikið flensufár valda gríðarlegu álagi á Landspítalanum.
„Þetta er inflúensa sem er bæði af A og B gerð. Veirusýkingar, parainflúensa. Við höfum verið með Covid og aðrar kórónuveirur. Svo hefur komið upp hérna faraldur af nóróveirusýkingum sem getur lagst afar illa á þá sem eru aldraðir,“ segir Már.
Hann segir að nýtt rými hafi verið opnað á spítalanum í dag og næstu daga.
„Við erum að reyna að opna rými fyrir eina tólf sjúklinga. Þá á Hringbraut, svo erum við með viðbótarrými sem við getum nýtt hér og hvar,“ segir hann.
Már segir skýringuna á þessari aukningu á flensum vera að þær hafi legið í láginni í kórónuveirufaraldrinum vegna samkomutakmarkana og mikilla sóttvarna.
Hann segir koma til greina að takmarka heimsóknir á spítalann.
„Það hefur komið til greina. En við biðlum til fólks að viðhafa ströngustu sóttvarnir ef það kemur hingað og alls ekki koma með flensueinkenni. Þá á líka við út í samfélaginu við biðlum til fólks að halda sig heima sé það veikt. Þá verðum við fljótari að komast yfir þennan kúf,“ segir Már.