Víða er opið í verslunum og hjá öðrum þjónustuaðilum á landinu . Opið er í verslunarmiðstöðvum Smáralindar og Kringlunnar frá klukkan 10 til 13. Í miðborginni verður opið í flestum verslunum frá klukkan 10 til 12 en sumir verslunareigendur hafa opið lengur. Sama gildir um verslunarmiðstöðina Glerártorg á Akureyri en þar er opið til klukkan 12. Þeir sem eru á síðasta snúning hafa því nægan tíma til stefnu.
Vanti hráefni í eldamennskuna eða baksturinn þarf eigi að örvænta enda er opið í fjölmörgum verslunum víðsvegar á landinu í dag. Í Fjarðarkaupum er opið frá 9 til 12:30 og Bónus er með opið í öllum verslunum sínum frá klukkan 10 til14. Þá verður opið í verslunum Krónunnar frá 9 til 15 í dag. Í Hagkaupum er opið til kl. 14, það er að segja í Smáralind og í Kringlunni, en í öðrum verslunum Hagkaupa er opið til klukkan 16.
Þeir sem ætla út að borða í kvöld hafa úr fjölmörgum stöðum að velja. Svo eitthvað sé nefnt verður opið á veitingastöðum Kopar, Lóu og á Bastard. Hægt er að nálgast opnunartíma á veitingastöðum hér.
Opið í sund fram að hádegi
Vesturbæingar eru einnig í góðum málum en opið er í Melabúðinni frá klukkan 9 til 14 í dag. Verslunin Rangá í Skipasundi toppar Melabúðina en þar verður opið til klukkan 15. Þá eru langflestar verslanir Krambúðarinnar opnar til klukkan 16 að frátöldum verslunum Krambúðarinnar á Flúðum, Hólmavík, Laugarvatni og Reykjahlíð.
Enn er hægt að komast í Nettó en allar verslanir keðjunnar eru opnar til klukkan 14 í dag. Í Extra verður extra langur opnunartími, til klukkan 17 á Barónsstíg í Reykjavík og á Akureyri og í Reykjanesbæ. Þá verður opið í Pétursbúð frá 9 til 5 í dag og opið verður í nýrri verslun OK Market á Hlíðarenda til klukkan 20 í kvöld.
Höfuðborgarbúar komast í sund fram að hádegi en opið er í sundlaugum Reykjavíkur til klukkan 13 í dag. Íbúar á Seltjarnarnesi komast einnig í sund en opið er í Sundlaug Seltjarnarness til klukkan 12.30. Á Álftanesi og í Keflavík er opið til 11.30 og í Klébergslaug er opið til 13. Akureyringar geta skellt sér í sund frá 9 til 12 en lokað verður á Egilsstöðum. Hér má sjá nánari opnunartíma sundlauga landsins.
Almenningssamgöngur leggjast alls ekki af en strætisvagnar munu ganga samkvæmt laugardagsáætlun til klukkan 15 í dag. Á morgun, jóladag, verður ekið samkvæmt sunnudagsáætlun og hið sama gildir um annan í jólum.
Þeir sem drekka rauðvín, eða annað áfengi yfir hátíðarnar, komast enn í ríkið en opið er í ÁTVR frá klukkan 9-13 í dag. Lokað verður á jóladag og annan í jólum og er því naumur tími til stefnu. Þá er opið í Nýju vínbúðinni og hægt að panta til klukkan 14 í dag.
Listinn er langt frá því að vera tæmandi. Vanti eitthvað á listann er hægt að senda póst á ritstjorn@visir.is