Indónesíska þingið samþykkti breytingar á hegningarlögum sem gera það bæði refsivert að stunda kynlíf utan hjónabands og banna ógiftu fólki að búa saman í síðustu viku. Þingmenn sögðu breytingarnar mikilvægar til að standa vörð um „indónesísk gildi“.
Wayan Koster, ríkisstjóri Balí, lýsti því yfir í gær að þeir sem heimsækja eða búa á Balí þurfi ekki að hafa áhyggjur af nýju lögunum. Þau taki ekki gildi fyrr en eftir þrjú ár en auk þess verði fólk aðeins sótt til saka á grundvelli kvartana frá foreldrum, maka eða barni.
Reyndi hann að fullvissa erlenda ferðalanga um að hjúskaparstaða fólks yrði ekki könnuð sérstaklega við innritun á hótelum, íbúðum, gistihúsum eða heilsulindum, að sögn Reuters-fréttastofunnar. Sagði Koster ekkert hæft í fréttum um afbókanir á ferðum og hótelgistingu á eyjunni eftir að lögin voru samþykkt.
Sameinuðu þjóðirnar hafa lýst áhyggjur af því að nýju hegningarlögin ógni borgararéttindum fólks. Lögin leggja einnig bann við því að móðga forseta landsins, þjóðfánann og ríkisstofnanir.