Gunnar Guðmundsson, prófessor við Háskóla Íslands, Snævarr Guðmundsson, sviðsstjóri Náttúrustofa Suðausturlands, og Leifur Örn Svavarsson fjallaleiðsögumaður sendu á dögunum inn erindi til sveitarstjórnar Skaftárhrepps.

Þar leggja þeir til að tindurinn fái nafnið Helgatindur, í höfuðið á Helga Björnssyni.
Sveitarstjórn samþykkti fyrir sitt leyti tillöguna og vísaði til örnafnanefndar til umfjöllunar. Nefndin mun funda um málið og fleiri til síðar í dag.
Í bréfinu segir að um sé að ræða 1.374 metra háan tind, um 2,5 kílómetra vestan frá Geirvörtum og um fjórum kílómetrum norðaustur af Hágöngum.
Fram kemur að fjallstindurinn sé innan marka Þórðarhyrnu-eldstöðvakerfisins, virkri megineldstöð, og tengdur hnjúkaröð með stefnu í Þórðarhyrnu.
„Aðrir tindar í þessari hnjúkaröð eru þó á kafi í jökli og sjást ekki, en þeir komu fram í íssjármælingum Helga Björnssonar jöklafræðings sem voru gerðar á síðustu áratugum, til þess að rannsaka botn Vatnajökuls. Umræddur tindur mun þó hafa staðið upp úr jökulyfirborðinu, alla vega á 20. öld.“
Stendur um sextíu metra upp úr jöklinum
Tindurinn er myndaður úr rýólíti (líparít) og nokkuð ljós-/gráleitur ásýndar. Hann rís um sextíu metra upp úr jöklinum og þar sem hann sé svipaður að hæð og Geirvörtur sjáist hann víða að.

Þeir Gunnar, Snævarr og Leifur Örn segja í bréfinu að þeir leggi til að tindurinn verði nefndur Helgatindur, til heiðurs Helga Björnssyni jöklafræðingi.
„Helgi Björnsson prófessor emeritus við Háskóla Íslands hefur áratugum saman rannsakað jökla landsins, ásamt samstarfsmönnum sínum. Meðal annars kortlagt allan botn Vatnajökuls með ísjá þannig að hægt var að sjá nákvæmlega landslagið undir jöklinum.
Vilja heiðra Helga fyrir sín störf
Um er að ræða mikið vísindalegt afrek sem hefur haft ómetanleg áhrif á þekkingu á jöklafræði á Íslandi og í heiminum. Vegna þessarar kortlagningar hefur verið hægt að útbúa spálíkön um framtíð jöklanna, með tilliti til loftslagsbreytinga, afmarka vatnasvið einstakra skriðjökla sem sumir eru vatnsforðabúr til raforkuframleiðslu, meta jöklabúskap og leggja til gögn sem nýtast í að meta hvernig þeir hafa þróast frá landnámi. Með þessu merka framlagi hafa opnast ný tækifæri til þess að auka þekkingu okkar enn frekar á íslenskum jöklum.
Með þessari nafngift viljum við heiðra Helga fyrir hans vísindastörf,“ segir í bréfinu.
Lesa má um rannsóknir Helga Björnssonar á heimasíðu Háskóla Íslands.