Viðræður fulltrúa Starfsgreinasambandsins, VR og Landssambands íslenskra verslunarmanna við Samtök atvinnulífsins fóru í uppnám í gærmorgun eftir að Seðlabankinn tilkynnti um 0,25 prósentustiga hækkun stýrivaxta.
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, boðaði samningsaðila óvænt til fundar í stjórnarráðinu klukkan hálf tíu í morgun. Að fundi loknum sagði hún fréttamönnum að ríkisstjórnin væri reiðubúin að greiða fyrir gerð kjarasamninga ef kostur væri á því. Engar sérstakar aðgerðir hefðu verið nefndar í þeim efnum á fundinum.
Þegar Kristján kom út af fundinum sagði hann að það hjálpaði að finna að það væri skilningur á stöðunni sem komin væri upp í viðræðunum.
„Vonandi mun það leiða okkur eitthvað áfram fram á veginn en það er auðvitað bara samningsaðila að vinna með að finna leiðir. Ég vænti þess og skynja að það er vilji til að koma inn í málin ef þörf þykir. Það er auðvitað verulega gott fyrir okkur,“ sagði forseti ASÍ.
Samningafundur er hjá flestum hópum hjá ríkissáttasemjara í dag. Spurður út í hvort slitnað gæti upp úr viðræðunum, meðal annars í ljósi hvassra yfirlýsinga frá Ragnari Þór Ingófssyni, formanni VR, sagði Kristján að það yrði að koma í ljós í dag.
„Staðan er auðvitað bara brotthætt, hún er það,“ sagði hann.