Jólamolar Vísis munu birtast reglulega fram að jólum. Þar fáum við að kynnast þjóðþekktum einstaklingum í nýju ljósi og komast að því hvað það er sem kemur þeim í jólagírinn. Jólamolunum er ekki síður ætlað að koma lesendum Vísis í hið eina sanna hátíðarskap.
Hvort myndirðu skilgreina þig sem Elf eða The Grinch?
„Haha elska þá báða, en ég myndi frekar líkja mér við Grinch, þar sem ég dett frekar seint jólagírinn. Ég elska jólin en ég kemst ekki í jólagírinn fyrr en kl 15 á aðfangadag þegar ilmurinn af jólasósunni og hamborgarhryggnum er farinn að ilma um eldhúsið.“
Hver er þín uppáhalds jólaminning?
„Mín uppáhalds jólaminning frá æsku er þegar að við öll systkinin, mamma og pabbi vorum öll saman að borða jólafrómasinn og athuga hver væri með möndluna í munninum.“
Hver er eftirminnilegasta jólagjöf sem þú hefur fengið?
„Eftirminnilegustu jólagjafirnar eru þær sem ég fæ frá börnunum á hverju ári sem þau búa til sjálf í skólanum. Ég elska þær gjafir og þær virkilega hitta beint í hjartastað.“
Hver er versta jólagjöf sem þú hefur fengið?
„Versta gjöfin voru gönguskór sem ég notaði aldrei og sá sem gaf mér gönguskó hefði átt að vita betur haha.“
Hver er uppáhalds jólahefðin þín?
„Mín uppáhalds jólahefð er jólakaffitíminn kl 15:00 á aðfangadag þar sem við setjumst niður öll saman að horfa á sænska jólaþáttinn frá Disney.“
Hver er þín uppáhalds jólamynd?
„Það er svo erfitt að velja eina mynd, en ef það er bara ein þá er það Home alone 2.“
Hvert er þitt uppáhalds jólalag?
„Uppáhalds jólalagið er Ein handa þér með Stebba Hilmars.“
Hvað borðar þú á aðfangadag?
„Við borðum hamborgarhrygg, jólasósuna, sykurbrúnaðar kartöflur, rauðkál og gular baunir. Desertinn er ananas frómas.“
Hvers óskar þú þér í jólagjöf í ár?
„Ég veit aldrei hvað mig langar í jólagjöf og það er algjör höfuðverkur fyrir þá sem gefa mér gjafir. Ef ég ætti að segja eitthvað væri það trefill frá Celine Homme.“
Hvað er það sem hringir inn jólin fyrir þér?
„Spenningurinn í krökkunum, jólaljós, kósíheit og fjölskyldan.“
Er eitthvað skemmtilegt á döfinni hjá þér núna fyrir jólin?
„Það eru fullt af skemmtilegum verkefnum framundan sem koma í ljós fljótlega eftir áramótin. En það verður slakað vel á um hátíðirnar og passað upp á að njóta þeirra með fjölskyldunni.“