UNICEF á Íslandi fékk til liðs við sig fjölbreyttan hóp talsmanna á Íslandi, bæði úr röðum barna og fullorðinna, til að varpa ljósi á mikilvægi fjölbreytileika, jafnréttis og þátttöku. Meðal þeirra sem koma fram í myndbandinu eru fótboltastjarnan og pólski landsliðsmaðurinn Robert Lewandowski, Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, Sandra Sigurðardóttir landsliðskona í knattspyrnu, Páll Óskar Hjálmtýsson, tónlistarmaður, Aníta Briem, leikkona, Mars Proppé, hinseginaktívisti og eðlisfræðinemi, Vilhjálmur Hauksson, fréttamaður á KrakkaRÚV, Sigríður Eyþórsdóttir, tónlistarkona og Þorkell Gunnar Sigurbjörnsson, íþróttafréttamaður á RÚV svo fáein séu nefnd.
Með myndbandinu minnir UNICEF sérstaklega á 2. grein Barnasáttmálans sem kveður á um að öll börn séu jöfn og sendir mikilvæg skilaboð til heimsins um að við þurfum öll að vera í sama liði, Réttindaliðinu, þegar kemur að réttindum barna.
Myndbandinu fylgir áskorun UNICEF á Íslandi til almennings, stjórnvalda og fyrirtækja um að taka afstöðu gegn fordómum og mismunun í samfélaginu og ganga í Réttindalið UNICEF. Öflugasta vopnið gegn fordómum, hatursorðræðu og mismunun er fræðsla og upplýstar samræður. Vill UNICEF með þessu auka þekkingu á Barnasáttmálanum og réttindum barna og hvetja fólk til að líta í eigin barm og koma fram við öll börn af virðingu, hvort heldur sem er í eigin persónu eða á netinu.
Upplýsingar um myndbandið:
- Ábyrgðaraðili: UNICEF á Íslandi
- Leikstjórn: Hannes Þór Halldórsson
- Framleiðsla: Hannes Þór Arason
- Kvikmyndataka: Baltasar Breki Samper
- Ljósmyndir: Baldur Kristjánsson
- Lýsing: Stefán Freyr Margrétarson
- Hár og förðun: Anna Kristín Óskarsdóttir
- Hljóð á setti: Árni Gylfason
- Aðstoð við framleiðslu: Úlfur E. Arnalds
- Eftirvinnsla: Trickshot
- Grafík: Kristján U. Kristjánsson
- Hljóðeftirvinnsla: Birgir Tryggvason