Handbolti

Bjarki með fjögur mörk þegar Veszprem skoraði fimmtíu í einum leik

Smári Jökull Jónsson skrifar
Bjarki Már Elísson og félagar hans í Veszprem skoruðu 50 mörk gegn Ferencvaros í ungversku deildinni í dag.
Bjarki Már Elísson og félagar hans í Veszprem skoruðu 50 mörk gegn Ferencvaros í ungversku deildinni í dag. Veszprem

Leikur Telekom Veszprem og Ferencvaros TC í ungversku deildinni í handknattleik í dag fer líklega í einhverjar sögubækur. Veszprem vann þar 50-40 sigur í ótrúlegum markaleik.

Bjarki Már Elísson gekk til liðs við Veszprem í sumar og hefur farið vel af stað með liðinu sem hefur verið eitt af sterkustu liðum ungversku deildarinnar í fjöldamörg ár. 

Liðið hefur endað í öðru af tveimur efstu sætum deildarinnar öll ár síðan 1984 og unnið fjölmarga meistaratitla, þó þeir hafi þurft að sætta sig við silfurverðlaun í deildinni síðustu tvö árin.

Leikurinn í kvöld var ótrúleg markaveisla. Fyrir leikinn var Veszprem jafnt Pick Szeged á toppi deildarinnar en Ferencvaros í sjötta sætinu. Ferencvaros er með Val í riðli í Evrópudeildinni en Valsmenn unnu einmitt frækinn sigur á liðinu í viðureign þeirra á Hlíðarenda á dögunum.

Eftir fyrri hálfleikinn í kvöld var staðan 25-21 fyrir Veszprem, tölur sem engum myndi bregða að sjá í lok handboltaleiks. Markaflóðið hélt hins vegar áfram í síðari hálfleik og að lokum hafði Veszprem skorað fimmtíu mörk gegn fjörtíu mörkum Ferencvaros.

Eins og flestir vita er handboltaleikur sextíu mínútur og að meðaltali skoruðu leikmenn því eitt og hálft mark á mínútu í kvöld sem er ótrúleg tölfræði. Í ungverskum miðlum kemur fram að aldrei hafi verið skoruð jafn mörg mörk í einum leik í ungversku deildinni.

Bjarki Már skoraði fjögur mörk fyrir Veszprem í leiknum en Svíinn Andreas Nilsson var markahæstur hjá liðinu með ellefu mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×