Nýjasti vindurinn sem blæs um höfuðstöðvar KSÍ er í kringum treyju sem Aron Einar Gunnarsson fékk eftir að leika sinn 100. A-landsleik. Dagný Brynjarsdóttir birti færslu á Instagram-síðu sinni þar sem hún benti á að hvorki hún né Glódís Perla Viggósdóttir hefðu fengið samskonar gjöf.
Í kjölfarið benti landsliðsmarkvörðurinn fyrrverandi Guðbjörg Gunnarsdóttir á að hún hefði aldrei fengið styttu sem leikmenn eiga að fá fyrir að leika 50 A-landsleiki. Margrét Lára Viðarsdóttir, markahæsti leikmaður kvennalandsliðsins frá upphafi, benti einnig á hvernig hún fékk engar þakkir eftir farsælan landsliðsferil.
Alltaf slökkt á símanum
Benedikt Bóas Hinriksson heldur úti viðtalsþættinum Íþróttavikan með Benna Bó. Í síðasta þætti voru þeir Hörður Snævar Jónsson, yfirmaður íþróttadeildarinnar hjá Torgi, og Tómas Þór Þórðarson, ritstjóri enska boltans hjá Símanum.
„Það hefur verið svona, undanfarna mánuði. Þetta var eitthvað sem pirraði mann í formannstíð Guðna Bergssonar, það var alltaf slökkt á símanum þegar eitthvað kom upp á. Ég átti alls ekki von á því að Vanda Sigurgeirsdóttir myndi fara í felur þegar eitthvað kæmi upp á, þegar hún tók við formannsembættinu,“ sagði Hörður Snævar.
„Þessi vinnubrögð minna mig satt best að segja á Sólveigu Önnu Jónsdóttur, formann Eflingar,“ bætti hann við að endingu.