Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir fulltrúi Pírata í nefndinni segir að formaður nefndarinnar hefði ekki fyrr en í gærkvöldi sagt þeim að einungis fulltrúar frá ríkislögreglustjóra yrði viðstaddir fundinn þrátt fyrir beiðni nefndarmanna.
„Ekki með nokkrum hætti. Það var ekkert sem kom fram á fundinum í síðustu viku sem gaf til kynna að það væru nein vandkvæði á því að þessir aðilar yrðu boðaði rá fundinn og í rauninni lætur formaðurinn eins og beiðnin sé að koma fyrst fram núna þegar þetta var rætt í miklum hita á síðasta fundinn og að var alveg skýrt hver beiðnin var,“ segir Arndís sem bendir á að mikið liggi á þessum máli og því sé í raun óboðlegt að ráðherra hafi ekki setið fundinn.
Arndís hefur lagt fram bókun þar sem gerðar eru alvarlegar athugasemdir við stjórn nefndarinnar af hálfu formanns.
Bryndís Haraldsdóttir, formaður allsherjar-og menntamálanefndar, sagði að loknum fundi að dómsmálaráðherra og fulltrúar frá Útlendingastofnun verði boðaðir á næsta fund nefndarinnar.

„En eins og þið tókuð kannski eftir þá dróst fundurinn svolítið á langinn þannig að umræðuefnin eru mörg þannig að það var bara fínt að fá þessa aðila núna sem sáu um framkvæmdina og þekkja hana til að svara þeim spurningum og í kjölfarið getum við rætt við bæði Útlendingastofnun og ráðherra,“ segir Bryndís.
Bryndís sagði að henni hefði fundist góð og upplýsandi umræða hafa skapast á fundinum en fyrir svörum voru meðal annars aðilar sem voru í leigufluginu til Grikklands.
„Það er auðvitað ljóst að það er ýmislegt sem hefði mátt betur fara en ég held samt sem áður að það sé hægt að fullyrða það að þessir ágætu einstaklinga hafi verið að gera sitt allra, allra besta í mjög erfiðum aðstæðum.“
Arndís var spurð hvað henni fyndist um svör stoðdeildar ríkislögreglustjóra.
„Þau voru svo sem fyrirsjáanleg og mörg þeirra höfðu komið fram í fjölmiðlum nú þegar og alveg ljóst að ranglætið liggur víða þegar kemur að þessum brottvísunum.“
Þú ert ekki mjög sátt eftir þennan fund?
„Alls ekki,“ segir Arndís.
Fréttin hefur verið uppfærð með viðtali við Bryndísi Haraldsdóttur.