Enski boltinn

Mögnuðu endur­koma Leeds | For­est jafnaði í blá­lokin

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Annan leikinn í röð skoraði Leeds United sigurmark undir lok leiks.
Annan leikinn í röð skoraði Leeds United sigurmark undir lok leiks. Daniel Chesterton/Getty Images

Leeds United og Bournemouth mættust í ensku úrvalsdeildinni í dag. Lauk leiknum með 4-3 sigri Leeds en Bournemouth komst 3-1 yfir. Þá vann Brighton & Hove Albion 3-2 sigur á Úlfunum á meðan Nottingham Forest og Brentford gerðu dramatískt 2-2 jafntefli.

Leeds byggði á góðum sigri gegn Liverpool í síðustu umferð með stórskemmtilegum sigri í dag. Rodrigo kom heimamönnum í Leeds yfir snemma leiks með marki úr vítaspyrnu. Marcus Tavernier svaraði fyrir gestina skömmu síðar og Philip Billing sá til þess að Bournemouth var 2-1 yfir í hálfleik.

Dominic Solanke kom gestunum í 3-1 í upphafi síðari hálfleiks og virtist Bournemouth vera á leið heim með þrjú stig. Varamaðurinn Sam Greenwood var ekki sammála því en hann minnkaði muninn þegar hálftími var til leiksloka. Greenwood lagði svo upp jöfnunarmarkið sem Liam Cooper skoraði.

Crysencio Summerville skoraði svo sigurmarkið, annan leikinn í röð, á 84. mínútu. Staðan orðin 4-3 og reyndust það lokatölur leiksins. Leeds er komið upp í 12. sæti með 15 stig að loknum 13 leikjum. Bournemouth er í 15. sæti með 13 stig.

Í Nottingham var Brentford í heimsókn. Heimamenn í Forest komust yfir þökk sé marki Morgan Gibbs-White á 20. mínútu en á þriðju mínútur uppbótartíma fyrri hálfleiks fengu gestirnir vítaspyrnu. Bryan Mbeumo skoraði í fjarveru Ivan Toney og staðan 1-1 í hálfleik.

Yoane Wissa kom Brentford yfir þegar stundarfjórðungur var til leiksloka en þegar sex mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma varð Zanka fyrir því óláni að skora sjálfsmark og fór það svo að leiknum lauk með 2-2 jafntefli.

Nottingham er sem fyrr í botnsæti deildarinnar með 10 stig á meðan Brentford er í 10. sæti með 16 stig. Að lokum vann Brighton 3-2 sigur á Úlfunum. Tapliðið er í 19. sæti með 10 stig á meðan Brighton er í 6. sæti með 21 stig.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×