Ungmennaþingið hófst eftir hádegi en ungmenni frá átta sveitarfélögum á Vestfjörðum, um 40 manns sitja þingið, sem lýkur síðdegis á morgun. Þingið er eitt af áherslu verkefnum Sóknaráætlunar Vestfjarða en það er haldið til að efla lýðræðisvitund ungmenna og valdefla þau til að taka þátt í samfélagslegri umræðu, koma skoðunum sínum á framfæri og láta til sín taka.
Steinunn Ása Sigurðardóttir verkefnisstjóri hjá Vestfjarðarstofu fer fyrir ungmennaþinginu og veit hver helstu dagskráratriði þess verða.
„Það er ýmislegt, allt frá samgöngum, skólamálum, einelti, ofbeldi yfir í umhverfismál, alþjóðamál og í rauninni allur skalinn. Þetta er í fyrsta sinn, sem að svona ungmennaþing er haldið á Vestfjörðum. Það hefur verið haldið áður á nokkrum stöðum á landinu í landshlutanum en við vonumst bara til þess að þetta verði einhver fyrirmynd, sem við getum haldið áfram að vinna eftir og haldið áfram að geta gefið ungu fólki rödd og látið til sín taka,“ segir Steinunn Ása.

Steinunn Ása segir mjög mikilvægt að kjörnir fulltrúar í sveitarstjórnum hlusti á unga fólkið sitt.
„Já, þetta er svona kannski spark í rassinn fyrir sveitarstjórnir að hlusta meira á ungt fólk. Samkvæmt æskulýðslögum eiga sveitarfélög að starfrækja ungmennaráð og við erum að valdefla krakkana til að taka meiri þátt í umræðunni og gefa þeim tólk og tæki til þess,“ segir Steinunn Ása enn fremur.