Ein af fyrstu breytingunum sem Musk virðist ætla að gera er að taka upp nokkurs konar áskriftarþjónustu þar sem notendur myndu greiða átta dali á mánuði. Í röð tísta segir Musk að áskrifendur muni frá blátt merki við nafn sitt, forgang í leitarvél Twitter og samræðum, færri auglýsingar og geta birt lengri myndbönd og hljóðbúta.
Twitter s current lords & peasants system for who has or doesn t have a blue checkmark is bullshit.
— Elon Musk (@elonmusk) November 1, 2022
Power to the people! Blue for $8/month.
Þarð að auki segir Musk að þetta fyrirkomulag muni gefa Twitter nýja tekjulind sem hægt sé að nota til að greiða notendum fyrir efni sem þeir framleiða fyrir Twitter.
Starfsmenn Twitter eru einnig sagðir skoða leiðir til að gera notendum kleift að birta myndbönd sem aðrir notendur munu þurfa að borga fyrir til að sjá. Fyrirtækið myndi svo taka hluta af þeim tekjum.
Musk tók yfir Twitter í síðustu viku eftir langvarandi deilur um kaupin en fyrirtækið kostaði 44 milljarða dala. Fyrirtækið tók á sig miklar skuldir við yfirtökuna. Greinendur segja að vaxtagreiðslur Twitter muni vegna þessara skulda fara úr um fimmtíu milljónum dala í fyrra, i um milljarð dala á næsta ári.
Sjá einnig: Skuldir Twitter stigmagnast við yfirtöku Musks
Í frétt Wall Street Journal segir að nýjar tekjulindir séu gífurlega mikilvægar fyrir Musk og Twitter. Eins og áður segir hafa mestar tekjur fyrirtækisins í gegnum árinu komið til vegna auglýsinga. Tvö stór bandarísk auglýsingafyrirtæki ráðlögðu skjólstæðingum sínum að forðast auglýsingar á Twitter á næstunni og var það gert vegna áhyggja af ritstjórn á Twitter.
Sjá einnig: Rasistar og tröll nýta sér tækifærið á Twitter
Hatursorðræða hefur aukist til muna eftir að Musk tók við stjórn Twitter. Reuters segir frá því að í Bandaríkjunum hafi forsvarsmenn fyrirtækja sem auglýsa hjá Twitter verið hvattir til að hætta því, ákveði Musk að draga verulega úr ritstjórn á samfélagsmiðlinum, eins og hann hefur gefið í skyn.