Jafnaðarmannaflokkur Frederiksen forsætisráðherra fékk 27,5 prósent atkvæða sem svarar til fimmtíu þingsæta. Flokkurinn bætti við sig tveimur sætum og styrkti stöðu sína á þinginu. Frederiksen var hrærð í ræðu meðal stuðningsmanna í Christiansborg í nótt.
Hún sagði ljóst að ekki væri meirihluti á bak við núverandi ríkisstjórn. Frederiksen mun því skila umboði sínu til drottningar á morgun. Telja má fullvíst að hún fái umboð að nýju til að mynda nýja ríkisstjórn. Telja má líklegt að Frederiksen verði áfram forsætisráðherra.

Óljóst var fram á síðustu stundu hvort vinstri eða hægri blokkin gætu myndað meirihluta án þess að leita til Lars Løkke Rasmussen og Moderaterne. En um miðnætti, þegar öll atkvæði höfðu verið talin, var ljóst að vinstri blokkin næði inn 87 mönnum en við bætast þrjú sæti, eitt frá Færeyjum og tvö frá Grænlandi, sem tryggja vinstri blokkinni 90 þingsæti.
„Ég get ekki svarað því strax hvern ég vilji sem forsætisráðherra en [Mette] verður að missa lyklavöldin í einhvern tíma. Hvort sem það verði hún sem fái stólinn að nýju, eða einhver annar taki við, skýrist við myndun nýrrar ríkisstjórnar; breiðfylkingar sem mun færa Danmörku í rétta átt,“ sagði Løkke í ræðu fyrr í kvöld við mikil fagnaðarlæti viðstaddra.
Þá virtust Moderaterne í lykilstöðu en það breyttist þegar síðustu atkvæðin komu upp úr kjörkössunum.
„Við höfum verið stærsti flokkurinn í yfir tuttugu ár,“ sagði Mette Frederiksen eftir að hafa faðmað stuðningsfólk sitt í sal flokksins á meðan Respect með Arethu Franklin hljómaði í græjunum.
Fylgi og skipting þingsæta (innan sviga er fylgi í kosningunum 2019 og svo breyting á þingsætum frá fyrri kosningum):
- Jafnaðarmannaflokkurinn 27,5% (25,9%), 50 (+2)
- Venstre 13,3% (23,4%), 23 (-20)
- Moderaterne 9,3% (nýtt framboð), 16
- Sósíalíski þjóðarflokkurinn 8,3% (7,7%), 15 (+1)
- Danmerkurdemókratar 8,1% (nýtt framboð), 14
- Frjálslynda bandalagið 7,9% (2,3%), 14 (+10)
- Íhaldsflokkurinn 5,5% (6,6%), 10 (-2)
- Einingarlistinn 5,2% (6,9%), 9 (-4)
- Radikale Venstre 3,8% (8,6%), 7 (-9)
- Nýir borgaralegir 3,7% (2,4%), 6 (+2)
- Valkosturinn 3,3% (3,0%), 6 (+1)
- Danski þjóðarflokkurinn 2,6% (8,7%), 5 (-11)
Frederiksen benti á að enginn annar flokkur kæmist með tærnar þar sem Jafnaðarflokkurinn hefði hælana. Tölurnar tala sínu máli. Venstre fékk næst flest atkvæði eða 13,3 prósent. Aðeins tæplega helming af fylgi Jafnaðarmannaflokksins.
„Við erum eini flokkurinnn sem nær til fólksins og því fylgir ábyrgð. Við viljum þessa ábyrgð og ætlum að gera allt hvað við getum til að standa undir henni.“