Sport

Höskuldur: Vorum betra liðið en þetta féll ekki með okkur

Andri Már Eggertsson skrifar
Höskuldur Gunnlaugsson í leik kvöldsins
Höskuldur Gunnlaugsson í leik kvöldsins Vísir/Diego

Breiðablik tapaði 0-1 gegn KR í kvöld. Þetta var fyrsta tap Breiðabliks á heimavelli í deildinni á tímabilinu og var Höskuldur Gunnlaugsson, fyrirliði Breiðabliks, svekktur með tap kvöldsins. 

„KR skoraði en ekki við. Mér fannst við gera nóg til að vinna leikinn en við hefðum átt að gera betur á síðasta þriðjungi. Við höfum alltaf gert vel í að sækja mörk þegar við höfum lent undir en það vantaði í kvöld en mér fannst við betra liðið í leiknum en þetta féll með þeim,“ sagði Höskuldur Gunnlaugsson, í samtali við Vísi eftir leik. 

Höskuldi fannst Breiðablik betri í fyrri hálfleik en staðan í hálfleik var markalaus í lokuðum leik. 

„Mér fannst fyrri hálfleikur vel spilaður hjá okkur. Við vorum ekki að gefa nein færi á okkur ásamt því fengum við góðar stöður á vellinum. Við lokuðum á fyrirgjafirnar þeirra sem er þeirra helsta vopn. Við hefðum átt að fara betur með skyndisóknirnar sem við fengum en þetta var lokaður fyrri hálfleikur.“

Í seinni hálfleik gerði Kristján Flóki Finnbogason sigurmark leiksins og hrósaði Höskuldur KR fyrir góða sókn.

„Þetta var góð sending hjá Kristni og Kristján Flóki er góður skallamaður og það var gaman fyrir hlutlausa áhorfendur að sjá hann aftur á vellinum. 

Höskuldur viðurkenndi að tilfinningarnar voru blendnar eftir leik þar sem Breiðablik var að fagna með sínu fólki eftir tap. 

„Þetta var súrsætt en sem betur fer eigum við tvo leiki eftir og þar á meðal einn heimaleik. Þetta var fínn lærdómur um að við viljum ekki enda þetta svona. Frammistaðan í kvöld var fín og við verðum með fulla einbeitingu í síðustu tveimur leikjum,“ sagði Höskuldur að lokum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×