Dómsmálaráðherra segir núverandi kerfi hér á landi ekki uppfylla skilyrði Schengen sáttmálans og Ísland hafa fengið ákúrur vegna þessa. Frumvarp um breytingar á útlendingalögum sé væntanlegt á næstu dögum.
Búist er við því að flóttamenn sem komi til landsins verði um fimm þúsund í ár en meira en 3200 flóttamenn hafa lagt leið sína hingað það sem af er ári.

Aðspurð hvernig hún horfi á hugmyndir dómsmálaráðherra um búsetuúrræðin segir Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, þingmaður Pírata leiðinlegt að sjá hann vera að beita sér í máli sem enginn ágreiningur hafi verið um, þetta hafi ekki verið vandamál.
Hún veltir því upp hvort hugmyndir um búðir fyrir fólk sem hafi hlotið synjun og standi til að flytja úr landi sé frá Danmörku komin. Þar dvelji fullorðnir og börn í búðum til lengri tíma, jafnvel ára. Búðirnar séu til dæmis fyrir fólk sem ekki sé hægt að flytja úr landi.
„Þetta eru opnar búðir þar sem fólk getur komið og farið að vild þó það þurfi að dvelja þar og svo sem njóti ekki mikilla réttinda. Þannig að ráðherra er að mörgu leyti kannski að leggja til að við göngum lengra heldur en Danmörk, sem að er þekkt fyrir virkilega harða stefnu í málefnum flóttafólks,“ segir Arndís.
Hún segist hafa áhyggjur af því að orðræða dómsmálaráðherra undanfarið sé að búa til óþarfa ótta hjá flóttafólki.
„Það sannarlega hefur áhrif á samfélagsumræðuna og samfélagið allt og er mjög slæmt, við eigum að vera að vinna í hina áttina,“ segir Arndís.
Viðtalið við Arndísi má sjá í spilaranum hér að ofan.