Talið er að um tólf verkamenn að meðaltali hafi látist í hverri viku frá því að Katar tryggði sér mótið í desember 2010. Andlát verkamanna telji á þúsundum. Í samantekt The Guardian frá því í febrúar í fyrra var talið að 6.500 í það minnsta hefðu látið lífið við uppbyggingu mótsins.
Bandaríski þingmaðurinn Jan Schakowsky fór fyrir 15 manna hópi þingmanna sem sendu bréf á Infantino þann 29. september. Í bréfinu er þess krafist að verkafólk sem þurfti að þola misnotkun eigi skildar bætur sem og fjölskylda verkafólks sem hafi látist.
„Við stöndum með verkafólkinu og flykkjum okkur bakvið verkalýðsfélög og mannréttindasamtök um heim allan sem hafa kallað eftir því að FIFA setji upp bótasjóð, ásamt vinnumálastofnun verkafólks, áður en heimsmeistaramótið er flautað á,“ segir í bréfi bandarísku þingmannana.
Í fyrradag, þann 11. október, skrifuðu yfir 120 franskir þingmenn undir kröfu þar sem bar við svipaðan tón. Þar er kallað eftir að FIFA „setji upp, eins fljótt og auðið er, sjóð með að lágmarki 440 milljónir bandaríkjadala, til að greiða bætur til allra verkamanna, eða fjölskyldna þeirra, sem tóku þátt í undirbúningi heimsmeistaramótsins, hverra mannréttindi voru fótum troðin“.
Mikið hefur borið á slíkum kröfum á FIFA undanfarnar vikur þar sem herferðin undir myllumerkinu #PayUpFIFA (Borgið brúsann FIFA) hefur náð auknu fylgi. Fjórir af 14 meginstyrktaraðilum FIFA hafa lýst yfir stuðningi við hreyfinguna (Budweiser, Adidas, Coca-Cola og McDonald's) sem og Lisa Klaveness og Bernd Neuendorf, formenn norska og þýska knattspyrnusambandsins, og bæði enska og hollenska knattspyrnusambandið.
Mannréttindasamtökin Human Rights Watch segja að „nú þegar 40 dagar eru þar til fyrsta sparkið verður tekið á heimsmeistaramótinu, eigi FIFA, fremur en að einblína á hvernig þetta verði besta heimsmeistaramót sögunnar, að snúa sér að þeim gríðarlega kostnaði, þar á meðal mannlegum kostnaði, sem mótið hefur skapað“.