Innviðaráðuneytið hefur óskað eftir umsögn Grímsnes-og Grafningshrepps vegna ákvörðunar sveitarfélagsins að láta þá sem ekki eru með lögheimili í sveitarfélaginu greiða hærra gjald fyrir árskort í sund og líkamsrækt á Borg í Grímsnesi. Almennt verð fyrir árskort í sund og þreksal er 35 þúsund krónur en það kostar fólk sem hefur lögheimili í sveitarfélaginu 12 þúsund krónur.
Sjá nánar: Gjaldskrá sundlaugar standist ekki ákvæði stjórnarskrár
Björgvin Njáll Ingólfsson, sem sendi kvörtun til ráðuneytisins, segir augljóst að fyrirkomulagið brjóti í bága við jafnræðisákvæði stjórnarskrárinnar. Nýjum sveitarstjóra Iðu Marsibil Jónsdóttur, hefur verið falið að svara erindinu í samráði við lögmann sveitarfélagsins. Fréttastofa bar þessa gagnrýni undir Iðu í hádegisfréttum Bylgjunnar.
„Ég er náttúrulega, eins og þú komst inn á áðan, tiltölulega nýtekin við þannig að ég var ekki þegar umræðan sem slík átti sér stað og ákvörðun um þessa gjaldtöku var tekin. Ég veit þó að sveitarstjórnarfólki gengur gott eitt til þegar svona er gert og þetta tíðkast kannski víðar en við höldum. Þá er þetta kannski bara sett upp með öðrum hætti; til dæmis í formi frístundastyrks sem íbúar fá og þá lækka útgjöldin fyrir þessi kort sem samsvarar því,“ segir Iða sveitarstjóri.
Þannig snúist málið meira um útfærslu en nokkuð annað. Víða um land séu til dæmis frístundastyrkir og „loftbrú“ sem hafi sama tilgang. Engu að síður muni sveitarstjórnin taka gagnrýnina til skoðunar.
„Við munum bara vanda til verka við þessi svör sem við munum senda innviðaráðuneytinu og sjá bara hvað kemur út úr því en við munum að sjálfsögðu skoða þetta. Nú er að fara af stað fjárhagsáætlun og ný gjaldskrá verður sett upp. Það er aldrei að vita nema þetta breytist í haust en ég vil ekki fullyrða um neitt. Við munum bara skoða þetta og ræða.“