Kjarasamningar á almennum vinnumarkaði verða lausir þann 1. nóvember næstkomandi og á opinberum markaði í lok mars á næsta ári. Alls eru þetta vel á fjórða hundrað samninga en viðræður eru þegar hafnar hjá nokkrum stéttum við Samtök atvinnulífsins.
Auðvitað er mjög langt í land; hér virðist nefnilega lenska fyrir löngum samningaviðræðum. Í síðustu kjarasamningslotu árið 2018 runnu samningar út í yfir 99 prósent tilfella áður en nýr samningur var gerður.
Rúmur helmingur þessara samninga enduðu í deilu sem ríkissáttasemjari varð að koma að.
„Ég held að það sé mjög hátt hlutfall á alla mælikvarða. Og við erum enn þá með ellefu mál hér hjá ríkissáttasemjara, þannig að síðasta kjarasamningslota er ekki alveg búin þó að þessi nýja sé þegar hafin,“ segir Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari.
Þetta er óvenjulegt þegar litið er til nágrannaríkja okkar. Engin aðgengileg tölfræði er til um þessi mál í Norðurlöndunum en Aðalsteinn segir dæmið öfugt þar; mun færri mál enda í deilum hjá ríkissáttasemjara og þar hefja menn samningaviðræður mun fyrr.
„Það geta verið margar ástæður fyrir því en það er ákveðin lenska hérna að kjarasamningarnir taka langan tíma. Þannig að í yfir 99 prósent tilvika þá er fyrri samningur runninn út áður en að nýr samningur er undirritaður. Og það er gríðarlega hátt hlutfall í öllum samanburði,“ segir Aðalsteinn.
Þetta ástand er ekki eins og verður best á kosið að hans mati en hann vonar að staðan verði önnur í komandi kjarasamningslotu en í þeirri síðustu.
„Ég held að ef að okkur tekst að vinna saman og tryggja að fleiri kjarasamningar náist áður en að fyrri samningur rennur út að þá hafi allir ágóða af því vegna þess að launafólk veit þá hvað tekur við og launagreiðendur hafa þá líka vissu fyrir því hvernig framtíðin verður. Það er þessi óvissa sem er erfið fyrir alla held ég,“ segir Aðalsteinn.