„Við ætlum að reyna að upplýsa eins mikið um þetta flókna mál og hægt er. Markmiðið er að gera það með þessum upplýsingafundum,“ segir Gunnar Hörður Garðarsson, samskiptastjóri hjá yfirstjórn Ríkislögreglustjóra. Þannig verði mannskapurinn nýttur betur og tryggt að réttar upplýsingar berist almenningi hverju sinni.
„Við skiljum að það séu ekki allir glaðir með það, að ekki séu veitt viðtöl og stöðug upplýsingagjöf, en þetta er það sem við ætlum að gera í þessu tilfelli. Að hafa fundina þá frekar tíðari þegar við höfum upplýsingar sem við getum gefið út.“
Lögreglan boðaði til blaðamannafundar á fimmtudag vegna málsins. Karl Steinar Valsson, yfirlögregluþjónn hjá ríkislögreglustjóra, sagði á fundinum grun um að tveir menn hefðu haft í hyggju að undirbúa hryðjuverk hér á landi sem áttu að beinast gegn borgurum og stofnunum ríkisins.
Mennirnir tveir sæta gæsluvarðhaldi í fangelsinu á Hólmsheiði vegna málsins. Þeir eru taldir tengjast umfangsmikilli vopnaframleiðslu og -sölu. Um er að ræða framleiðslu á vopnum með þrívíddarprentara.
Gunnar Hörður segir lögregluna nú vinna úr gífurlegu magni gagna. Lögreglan fór í húsleitir á níu stöðum síðastliðinn miðvikudag og lagði hald á mikið magn gagna. Meðal annars af heimilum mannanna.
Stefnt er að því að halda upplýsingafund á miðvikudagin klukkan 15. Það skýrist betur eftir því sem nær dregur, að sögn Gunnars Harðar. Gæsluvarðhald yfir öðrum mannanna rennur út á miðvikudag.